Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. nóvember 2000 Dómsmálaráðuneytið

Ræða flutt á fundi ráðherra sem fara með mannréttindamál í ríkjum Evrópuráðsins

1


Ræða Sólveigar Péturdóttur dóms- og kirkjumálaráðherra
á fundi ráðherra,sem fara með mannréttindamál í ríkjum Evrópuráðsins.

Á fundinum, sem haldinn er í Róm dagana 2. – 3. nóvember, er
þess minnst að 50 ár eru liðin frá samþykkt Mannréttindasáttmála Evrópu .


Það er gamall málsháttur í Evrópu að allar leiðir liggi til Rómaborgar. Þetta var alkunna í mínu heimalandi og ein af fyrstu bókum sem rituð var á íslensku fyrir 800 árum var leiðarlýsing til Rómar.

Enn einu sinni liggja leiðir okkar til Rómaborgar til þess að minnast sögulegs atburðar. Samþykkt Mannréttindasáttmála Evrópu markaði tímamót. Sáttmálinn varð fyrirmynd allra annarra sáttmála um mannréttindi sem gerðir hafa verið á alþjóðlegum og svæðisbundnum samstarfsvettvangi, en eitt mikilvægasta framlag hans til framþróunar mannréttinda er það virka eftirlit með framkvæmd sáttmálans sem felst í starfi Mannréttindadómstóls Evrópu.

Dómstóllinn hefur með dómum sínum glætt sáttmálann lífi. Hann hefur brugðist við nýjum áherslum og breyttum aðstæðum með túlkun ákvæða samningsins á framsækinn hátt með það markmið í huga að sáttmálinn tryggi hámarksvernd mannréttinda

Mörg skref hafa verið tekin á síðustu 50 árum á hinni löngu leið okkar til bættrar verndar mannréttinda í heiminum. Í Evrópu höfum við náð lengra en nokkur gat séð fyrir árið 1950. En samt er mörgu ólokið. Því miður höfum við orðið vitni að alvarlegum mannréttindabrotum í sumum hlutum álfunnar. Lokamarkmið okkar um að full mannréttindi skuli alls staðar virt til fulls virðist enn vera talsvert langt undan.

Enn einu sinni eigum við þess kost að taka nýtt skref hér í Róm í framþróun mannréttinda í álfunni með því að 12. viðauki við mannréttindasáttmálann er lagður fram til undirritunar. Hann fjallar um bann við mismunun. Að mínu mati getur hann markað upphaf nýrra tíma í vernd mannréttinda . Ég get í þessu sambandi vitnað til reynslu okkar á Íslandi . Fyrir fimm árum var mannréttindakafla stjórnarskrár okkar breytt og dómstólar okkar fengu það erfiða verkefni að túlka nýtt ákvæði sem sérstaklega fjallar um jafnrétti. Það hefur óneitanlega í för með sér útvíkkun á túlkun mannréttinda.

Viðaukinn mun líklega hafa í för með sér nýjar skuldbindingar fyrir flest aðildarríki Evrópuráðsins til þess að grípa til aðgerða til að tryggja mannréttindi. Þetta verðum við að hafa í huga, þegar við felum Mannréttindadómstóli Evrópu hið vandasama hlutverk að beita þessari grundvallarreglu mannréttinda, banninu við mismunun.

Aðalatriði er vissulega að viðaukinn hefur í för með sér aukna vernd mannréttinda, sérstaklega á sviði félagslegra réttinda. Ég er hreykin af því að undirrita viðaukann af Íslands hálfu og vera í hópi fyrstu ríkja sem undirrita bókunina. Þetta er mikilsverður atburður, sem staðfestir þá skoðun okkar að öll mannréttindi skuli vera órofin og samtengd.

Við megum hins vegar ekki gleyma því, að Mannréttindadómstóll Evrópu stendur ávallt andspænis nýjum og ögrandi verkefnum. Málafjöldi fer stöðugt vaxandi. Gildistaka 12. viðauka mun vissulega auka starfsbyrði dómstólsins. Framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Hr. Schwimmer, hefur réttilega bent á að vernd mannréttinda hefjast heima fyrir. Virkni dómstólsins er lykilatriði í virkri vernd mannréttinda.
Við höfum á Íslandi unnið að því að koma á dómstólakerfi sem mætir slíkum kröfum. Okkur hefur tekist að stytta málsmeðferðartíma verulega og lítið er um óafgreidd mál hjá dómstólum. Þetta ætti að vera markmið Evrópuráðsins.

Mannréttindadómstóllinn er vissulega mikilvægasta stofnun Evrópuráðsins og starf hans er lykilatriði fyrir vernd mannréttinda í álfunni. Það er að mínu mati forgangsatriði að tryggja honum nægilega fjármuni og fólk til rekstrarins. Ef við viljum halda áfram stuðningi okkar við hið mikilvæga starf dómstólsins ættum við að taka heim með okkur skilaboð um hina brýnu þörf dómstólsins. Það ætti að vera forgangsatriði að tryggja öfluga starfsemi hans.

Að lokum vil ég þakka ítölsku ríkisstjórninni fyrir að skipuleggja þennan atburð hér í þessari sögufrægu og fallegu borg.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira