Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. ágúst 2002 Innviðaráðuneytið

Innheimta skipagjalds

Í tilefni af áliti umboðsmanns Alþingis vegna innheimtu skipagjalds, samkvæmt lögum um eftirlit með skipum, vill samgönguráðuneytið taka eftirfarandi fram:


Með breytingu á 77. gr. stjórnarskárinnar 1995, voru tekin af tvímæli um skyldu hins opinbera til að greina á milli þjónustugjalda og almennra skatta. Í kjölfarið skipaði fjármálaráðuneytið nefnd, er skyldi kanna hvort gildandi lög um heimtu ýmissa gjalda fullnægðu þeim kröfum er breytingin hafði í för með sér. Nefndin skilaði skýrslu sinni árið 1999. Þar komu fram ábendingar til ráðuneyta um hvað betur mætti fara í þeim málaflokkum er undir þau heyrðu. Lokið hefur verið við nauðsynlegar laga- og reglugerðabreytingar í málaflokkum samgönguráðuneytisins utan tveggja. Er þar um stóra og viðkvæma málaflokka að ræða, annars vegar breytingar á hafnalögum og hins vegar breytingar á lögum um eftirlit með skipum. Lagt var fram nýtt frumvarp til hafnalaga á síðastliðnu þingi, þar sem gert var ráð fyrir grundvallarbreytingu á hafnargjöldum. Frumvarpið náði ekki fram að ganga. Verður það því lagt fram að nýju á komandi haustþingi.

Jafnframt verður lagt fram á haustþingi nýtt frumvarp til laga um eftirlit með skipum. Í því eru lagðar til breytingar á skipagjaldi sem koma til móts við þær athugasemdir sem gerðar hafa verið við núverandi fyrirkomulag. Þá hefur verið unnið að umfangsmikilli endurskoðun á heildarfyrirkomulagi skipaskoðunar í landinu, þ.á m. hvort unnt sé að einfalda skoðunina og lækka kostnað. Þeirri endurskoðun er ekki lokið. Gert hafði verið ráð fyrir að breyta gjaldtökuákvæðum vegna skipagjalda um leið og fyrirkomulagi skipaskoðunar yrði breytt.

Í ljósi álits umboðsmanns Alþingis liggur fyrir að breyta verður gildandi gjaldtökuákvæðum án tillits til breytinga á fyrirkomulagi skipaskoðunar.

Vegna áður framkominna athugasemda umboðsmanns Alþingis um hæga afgreiðslu ráðuneytisins gagnvart málum tengdum umboðsmanni, vill ráðuneytið taka fram að gerðar hafa verið ráðstafanir svo tryggja megi skjótari afgreiðslu en orðið hefur í þeim tveimur málum tengdum samgönguráðuneytinu sem umboðsmaður hefur fjallað um nýverið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum