Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. maí 2003 Innviðaráðuneytið

Breyting á reglugerð um lánaflokka Íbúðalánasjóðs

Félagsmálaráðherra hefur breytt reglugerð um lánaflokka Íbúðalánasjóðs nr. 458/1999, með síðari breytingum. Gengur breytingin út á það að afnema heimild leigusala til að selja leigjanda afnotarétt. Þannig verði félögum og félagasamtökum óheimilt að selja leigjanda afnotarétt í almennum leiguíbúðum og þeim leiguíbúðum sem falla undir sérstaka átakið til fjölgunar leiguíbúðum. En gjaldið hefur getað numið allt að 30% af samþykktum byggingarkostnaði eða kaupverði íbúðar samkvæmt viðmiðunum Íbúðalánasjóðs en takmarkast við eigið framlag leigusala. Bann þetta tekur gildi 1. júní 2003.

Ástæða þessara breytinga eru tilfelli sem upp hafa komið þar sem leigusali hefur t.d. sett kaupin sem skilyrði fyrir leigurétti. Einnig hefur komið upp tilfelli þar sem seldur hefur verið of stór hlutur af byggingarkostnaðinum svo sem einnig þann hluta byggingarkostnaðar sem umfram er samþykktan byggingarkostnað Íbúðalánasjóðs. Einnig er ókosturinn við þessa leið að kaupendur afnotaréttar hafa verið uggandi um hag sinn ef áhvílandi leiguíbúðalán færu í vanskil og íbúðirnar enduðu á nauðungarsölu. En afnotaréttur þessi stendur á eftir kröfu Íbúðalánasjóðs í veðröð viðkomandi íbúðar.

Samningar um kaup á afnotarétti sem þegar hafa verið gerðir halda þó gildi sínu. Um þá samninga gilda þó einnig viðbótarákvæði sem sett verða til að skýra rétt leigjanda. Má þar nefna ákvæði um að hafi leigjandi keypt afnotarétt skal hann jafnframt njóta lægri leigugreiðslna í samræmi við lækkaðan fjármagnskostnað á viðkomandi íbúð og ákvæði um tímafresti vegna endurgreiðslu á afnotaréttinum til leigjenda segi leigjandi upp leigusamningi.

Til að minnka áhrif þessara breytinga þykir nauðsynlegt að gera einnig breytingu á þá leið að stjórn Íbúðalánasjóðs verði heimilt að taka ríkara tillit til sameignar við mat á lánshæfum byggingarkostnaði þegar sérþarfir væntanlegra leigutaka krefjast aukinnar sameignar, svo sem þegar um er að ræða aldraða, öryrkja eða fatlaða. Þannig getur lánsfjárhæðin hækkað sé um að ræða íbúðir fyrir slíka hópa.

Rétt er að taka það fram að breytingar þessar hafa engin áhrif á félagslegar leiguíbúðir sveitarfélaga og félagasamtaka.

Reglugerð um breytingu á reglugerð um lánaflokka Íbúðalánasjóðs, nr. 333/2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira