Hoppa yfir valmynd

Frétt

13. júní 2003 Innviðaráðuneytið

Fréttatilkynning

Endurskoðun á lögum um húsnæðismál,
nefnd um leigumarkað og könnun á húsnæðismarkaði


Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks segir að meðal helstu markmiða ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu sé: "Að haldið verði áfram endurskipulagningu á húsnæðismarkaði í samræmi við markmið um Íbúðalánasjóð. Lánshlutfall almennra íbúðalána verði hækkað á kjörtímabilinu í áföngum í allt að 90% af verðgildi eigna, að ákveðnu hámarki. Leigumarkaður íbúðarhúsnæðis verði efldur."

Í samræmi við þetta hefur félagsmálaráðherra ákveðið að hefja nú þegar vinnu til að undirbúa stefnumótun og frekari breytingar á lögum um húsnæðismál. Sérstakur verkefnisstjóri mun vinna með ráðuneytinu að mótun tillagna um aukin almenn lán til íbúðakaupa, nefnd verður sett á laggirnar til að skoða þörf fyrir félagsleg úrræði á leigumarkaði og unnið verður að gerð könnunar á húsnæðismálum á Íslandi.

Þessi áform hafa þegar verið kynnt í ríkisstjórninni.

Vinna að mótun tillagna vegna hækkunar almennra húsnæðislána

Félagsmálaráðuneytið hefur nú þegar hafið vinnu við að undirbúa tillögur um breytingar á lögum um húsnæðismál í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um hækkun lánshlutfalls almennra íbúðalána í áföngum í allt að 90%.

Sérstakur verkefnisstjóri, sem jafnframt er sérfræðingur hjá Íbúðalánasjóði, mun starfa með ráðuneytinu að þessum undirbúningi. Í því felst meðal annars mótun tillagna um hækkun lánshlutfalls almennra íbúðalána í allt að 90% og greining á mögulegum valkostum til þess að ná því markmiði, meðal annars í ljósi innlendra og alþjóðlegra aðstæðna, sem og skuldbindinga sem kunna að hafa áhrif á framkvæmdina.

Verkefnisstjóranum til ráðgjafar verður þriggja manna nefnd skipuð fulltrúum félagsmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og viðskiptaráðuneytis. Jafnframt mun ráðuneytið leggja áherslu á það að á undirbúningstímanum verði viðhaft gott og reglulegt samráð við meðal annars eftirtalda aðila:

· Stjórn Íbúðalánasjóðs
· Samtök banka og verðbréfafyrirtækja
· Seðlabanka Íslands
· Fjármálaeftirlitið
· Félag fasteignasala
· Fulltrúa aðila vinnumarkaðarins o.fl.

Ráðuneytið gerir ráð fyrir að tillögur og greinargerð hér að lútandi muni geta legið fyrir um áramót. Á þeim grundvelli mun ráðuneytið síðan vinna að frekari stefnumótun og aðgerðum í húsnæðismálum í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar.

Nefnd um leigumarkað og félagslegt leiguhúsnæði

Þá hefur félagsmálaráðherra ákveðið að setja á fót nefnd til að skoða málefni leigumarkaðar á Íslandi, en í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að stefnt skuli að því að leigumarkaður íbúðarhúsnæðis verði efldur. Nefndinni verður falið að skoða sérstaklega ástandið varðandi félagslegt leiguhúsnæði, þörfina fyrir slíkt húsnæði og aðgerðir/úrræði hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga), einkaaðila, fjármálastofnana og félagasamtaka á þessum vettvangi.

Í nefndinni er gert ráð fyrir að eigi sæti einn fulltrúi frá eftirtöldum aðilum: Félagsmálaráðherra, sem skipar formann, fjármálaráðherra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Íbúðalánasjóði, ASÍ, Samtökum atvinnulífsins, Öryrkjabandalagi Íslands, námsmönnum og Leigjendasamtökunum. Lagt er til að nefndin eigi jafnframt samráð við fleiri aðila sem málið varðar, svo sem BSRB, Búseta og samtök eldri borgara.

Gert er ráð fyrir að tillögur og greinargerð nefndarinnar geti legið fyrir um áramót.

Könnun á húsnæðismarkaði

Félagsmálaráðherra hyggst í samstarfi við Íbúðalánasjóð og eftir atvikum fleiri aðila beita sér fyrir gerð könnunar á húsnæðismarkaði á Íslandi. Með könnuninni verður leitast við að varpa ljósi á stöðu mála á þessum vettvangi og greina þarfir fyrir mismunandi leiðir við öflun húsnæðis. Vænst er að niðurstaða úr slíkri könnun muni nýtast ofangreindum aðilum við undirbúning að tillögugerð til ráðherra.

Stefnumótun í húsnæðismálum

Félagsmálaráðherra hefur væntingar um að störf ofangreindra aðila sem og könnun á húsnæðismarkaði muni nýtast til að leggja grunn að frekari stefnumótun í húsnæðismálum og að eftir slíkri stefnu verði unnið á kjörtímabilinu.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira