Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. júlí 2003 Félagsmálaráðuneytið

Fréttatilkynning

Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála hefur komist að niðurstöðu í máli er varðar rétt foreldra sem hafa tekið fæðingarorlof til greiðslna í orlofi. Niðurstaða nefndarinnar er sú að 2. mgr. 14. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, felur ekki í sér réttinn til orlofslauna heldur einungis réttinn til orlofstöku (sjá meðfylgjandi úrskurð).

Félagsmálaráðuneytið hafði áður sett fram það álit sitt að Fæðingarorlofssjóði bæri að greiða foreldrum orlofslaun. Ráðuneytið mun að sjálfsögðu hlíta niðurstöðu úrskurðarnefndar enda um endanlega ákvörðun að ræða innan stjórnsýslunnar. Framangreint fyrirkomulag kemur þó ekki í veg fyrir að aðili málsins geti lagt ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti sætti hann sig ekki við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.

Samkvæmt 5. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof er sérstakri úrskurðarnefnd falið það hlutverk að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Nefndin hefur endanlegt úrskurðarvald innan stjórnsýslunnar og er því ekki unnt að kæra úrskurði hennar til æðra stjórnvalds, svo sem ráðherra. Þannig hefur löggjafinn falið sjálfstæðri stjórnsýslunefnd að fjalla um rétt einstaklinga til greiðslna úr sjóðnum þegar ágreiningur rís um túlkun laganna.

Liggur því fyrir sú niðurstaða að rétturinn til orlofslauna telst ekki til þeirra réttinda sem foreldrar ávinna sér í fæðingarorlofi samkvæmt framangreindum lögum. Það kemur þó ekki í veg fyrir að samtök aðila vinnumarkaðarins semji um slík réttindi í kjarasamningum sín á milli. Slíkt hefur til að mynda verið gert í langflestum kjarasamningum er taka til opinberra starfsmanna. Sé það sameiginlegur skilningur aðila vinnumarkaðarins að greiða beri orlofslaun í þeim tilvikum sem hér um ræðir og þar með að endurskoða 14. gr. laganna um fæðingar- og foreldraorlof að þessu leyti mun félagsmálaráðherra taka það til sérstakrar skoðunar í samráði við þá.

Skjal fyrir Acrobat ReaderMál nr. 19/2003 (90 KB)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira