Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. nóvember 2003 Innviðaráðuneytið

Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna hefur flutt í nýtt húsnæði

Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna
Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna

Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna hefur flutt í nýtt og glæsilegt húsnæði á Hverfisgötu 6, 2. hæð, 101 Reykjavík. Lánasýsla ríkisins flutti úr húsnæðinu fyrir allnokkru í Höfðaborg og var það endurgert að ýmsu leyti.

Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna var sett á laggirnar sem tilraunaverkefni af félagsmálaráðuneyti í febrúar 1996. Í dag byggist rekstur Ráðgjafarstofunnar á samkomulagi félagsmálaráðuneytis, Íbúðalánasjóðs, Reykjavíkurborgar, Búnaðarbanka Íslands hf., Íslandsbanka hf., Landsbanka Íslands hf., Sambandi íslenskra sparisjóða, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Neytendasamtakanna, Þjóðkirkjunnar, Landsamtaka lífeyrissjóða, ASÍ og BSRB. Gildandi samkomulag gildir til 31. desember 2004. Jafnframt hefur verið leitað eftir fleiri aðilum til að styrkja reksturinn, t.d. til sveitarfélaga og aðila sem koma að þessum málum.

Á Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna starfa í dag 6 einstaklingar. Þar starfa m.a lögfræðingur, viðskiptafræðingar, hagfræðingur og byggingafræðingur. Forstöðumaður Ráðgjafarstofunnar er Ásta Sigrún Helgadóttir, lögfræðingur.

Hlutverk Ráðgjafarstofunnar:

Að veita fólki sem á í verulegum greiðsluerfiðleikum og komið er í þrot með fjármál sín endurgjaldslausa ráðgjöf. Ráðgjafarstofan skal veita fólki aðstoð við að fá yfirsýn yfir stöðu mála, hjálpa því við að gera greiðsluáætlanir, velja úrræði og hafa milligöngu um samninga við lánadrottna ef þess er þörf. Þá skal Ráðgjafarstofan veita alhliða ráðgjöf og fræðslu um fjármál heimilanna með útgáfu sérstakra bæklinga og fræðsluefnis.


Frá upphafi hafa um 4000 fjölskyldur á Íslandi fengið aðstoð við að leysa úr fjárhagsvandræðum sínum. Auk þess hafa nokkur þúsund manns fengið ráðgjöf símleiðis. Síðast en ekki síðst er það mikilvægt hlutverk að leiða til samstarfs þá aðila sem koma að lausnum á fjárhagsvanda fjölskyldunnar. Styrkurinn liggur í þessu samstarfi.

Ráðgjafarstofan hefur verið frumkvöðull á ýmsum sviðum á Íslandi. Sú neysluviðmiðun sem Ráðgjafarstofan leggur til grundvallar úttekt á fjárhagsstöðu umsækjanda sem byggir á könnun frá 1995 var algjör nýlunda í fjárhagsráðgjöf á Íslandi. Sú viðmiðun hefur m.a. verið lögð til grundvallar við gerð greiðslumats í húsnæðiskerfinu. En á Íslandi skortir viðmiðunarneyslustaðal, sbr. standardbudgett á hinum Norðurlöndunum. Bent hefur verið á nauðsyn þess að unnið verði að neysluviðmiðun sem taki mið af kostnaði fjölskyldunnar við að uppfylla nauðsynlegar þarfir sínar.

Fjölmargar ábendingar Ráðgjafarstofunnar hafa orðið hvati að lagabreytingum og breytingum á umhverfi skuldara. Á Íslandi skortir sérstaka löggjöf um lausn erfiðra skuldamála, sbr. lag om skuldsanering á hinum Norðurlöndunum. Hér á landi voru hins vegar sett lög árið 1996 um réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira