Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. september 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

30 ára norrænt samstarf í jafnréttismálum

Forseti Íslands hr. Ólafur Ragnar Grímsson

Forseti Finnlands frú Tarja Halonen

Frú Vígdís Finnbogadóttir

Ráðherrar og aðrir gestir

Það er sérstök ánægja og heiður fyrir okkur Íslendinga að boða til þessa hátíðarfundar hér í dag til að fagna norrænu samstarfi í jafnréttismálum sem staðið hefur með miklum ágætum undanfarin 30 ár.

Á þessum tímamótum er mikilvægt að staldra við og líta yfir farinn veg um leið og við mörkum okkur stefnu til framtíðar.  Mikilvægur árangur hefur náðst og er grundvöllur áframhaldandi vinnu við að skapa samfélag jafnréttis.  Í lýðræðisþjóðfélagi er grundvallaratriði að allir einstaklingar eigi jafna möguleika á að njóta eigin  hæfileika og séu metnir að verðleikum, óháð kynferði.

Fyrir rúmri öld var staða kvenna mjög bágborin.  Konur höfðu hvorki kosningarétt né kjörgengi.  Við arfskipti fékk dóttir helmingi minna en sonur.  Í bændasamfélaginu gilti húsbóndavald yfir fjölskyldunni – konu og börnum.  Þannig var staðan á Íslandi og einnig á öðrum Norðurlöndum.

Við upphaf 20. aldarinnar urðu umtalsverðar breytingar.  Fram komu hreyfingar sem börðust fyrir auknum réttindum kvenna.  Skilningur á málstað þeirra jókst. Jafnrétti kynjanna til náms var tryggt með lagasetningu á Íslandi árið 1911 með því að konur fengu fullan rétt til menntunar og embætta. Með nýrri stjórnarskrá sem staðfest var árið 1915 öðluðust konur, 40 ára og eldri, kosningarétt og kjörgengi til Alþingis.  Á fyrstu áratugum síðustu aldar var lagður grunnur að nútímajafnréttisbaráttu íslenskra kvenna. Þær fundu samtakamátt sinn, gáfu út sérstök kvennablöð til þess að kynna málstað kvenna, stofnuðu verkakvennafélög og Kvenréttindafélag Íslands árið 1907 og buðu fram kvennalista í bæjarstjórnarkosningum í Reykjavík árið 1908. (Margar kjörnar), svo helstu skref séu nefnd.

Á fyrra helmingi síðustu aldar var staða kvenna á almennum vinnumarkaði lengst af mjög veik.  Þær voru hlutfallslega fáar í vinnu utan heimilis, sóttu einkum í fáar starfsgreinar eins og kennslu og umönnunarstörf, og launin voru mun lakari en hjá körlum. 

Þrátt fyrir samþykkt Alþjóðavinnumálstofnunarinnar frá árinu 1951 um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf og samþykkt frá árinu 1958 um afnám misréttis með tilliti til atvinnu þá gekk hægt að jafna mun á launum kynjanna.  Á Íslandi voru sett lög árið 1961 um launajöfnuð karla og kvenna.  Þrátt fyrir þetta eigum við enn talsvert langt í land með að jafna laun kvenna og karla eins og nýleg könnun Verzlunarmannafélags Reykjavíkur, eins af fjölmennustu launþegasamtökum hér á landi,  leiðir í ljós. Samkvæmt nýlegri skýrslu forsætisráðuneytisins um efnahagsleg völd kvenna er nú talið að kynbundinn launamunur á Íslandi sé á bilinu 7-11%, sem stafar m.a. af því að þættir eins og hjónaband og barneignir hafa önnur áhrif á laun kvenna en karla.

Íslenskar konur sættu sig ekki við kyrrstöðuna sem ríkti í jafnréttismálum um og eftir miðbik síðustu aldar.  Árið 1975 efndu íslenskar konur með eftirminnilegum hætti til kvennafrídags. Þetta var árið eftir að norrænt samstarf í jafnréttismálum hófst á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar.  Tilgangur kvennafrídagsins á Íslandi var að vekja samfélagið til umhugsunar um framlag kvenna til atvinnustarfseminnar.  Þetta tókst svo um munaði.  Öllum varð ljóst að án vinnuframlags kvenna stöðvaðist gangverk þjóðfélagsins.  Með kvennafrídeginum árið 1975 varð á ný öflug vitundarvakning um stöðu kvenna.  Afraksturinn varð m.a. sá að árið 1976 voru sett sérstök jafnréttislög með það að markmiði að koma á fullu jafnrétti kvenna og karla.  Ekki leikur vafi á því að sú löggjöf og jafnréttislöggjöf sem fylgt hefur í kjölfarið hefur haft áhrif og mörg stór skref hafa verið stigin á undanförnum áratugum í átt til aukins jafnréttis. Mig langar sérstaklega að leyfa mér að nefna í því samhengi að Íslands er og verður minnst fyrir það að hafa fyrst lýðræðisríkja kjörið konu til þess að gegna embætti forseta, frú Vigdísi Finnbogadóttur. Frú Vigdís er gott dæmi um fyrirmynd sem blasir við konum á Íslandi og um heim allan.

Til gamans má geta þess að lítil stúlka í Reykjavík sat og horfði á sjónvarpið á þeim árum sem

Vigdís gegndi embætti, hún er nú rúmlega tvítug, og sá þá frétt um Ronald Reagan, þáverandi forseta Bandaríkjanna. Hún horfði á fréttina og snéri sér síðan að móður sinni og sagði með hneykslunartón í röddinni: ”Abb, abb, abb, kall forseti” ! Já, fyrirmyndir eru sannarlega mikils virði. Í dag erum við svo heppin að hafa hér með okkur annan kvenforseta, Tarja Halonen, frá Finnlandi, sem við, Norðurlandabúar, getum státað okkur af. Það er mikill heiður fyrir okkur að fá að njóta félagsskapar ykkar hér í dag.

Á þremur áratugum norræns samstarfs í jafnréttismálum hefur verið stofnað til fjölmargra rannsóknar- og samstarfsverkefna.  Ekki er unnt að telja þau öll upp við þetta tækifæri.  Nokkur standa þó upp úr.  Ég vil taka Bryt-verkefnið sem dæmi, eða ”Brjótum múrana” eins og það var nefnt á íslensku.  Unnið var að þessu mikla norræna samstarfsverkefni á árunum 1985 til 1989. Í stuttu máli hafði þetta verkefni það að markmiði að hvetja konur til að sækja í hefðbundin karlastörf og karla til að sækja í hefðbundin kvennastörf.  

Niðurstöður Bryt verkefnisins hafa sett sitt mark á samstarf Norðurlanda á þessu sviði.  Verkefnið leiddi í ljós að vandinn fólst ekki í því að konur væru færri í tilteknum starfsgreinum en karlar.  Vandinn fólst í því að vinnumarkaðurinn var tvískiptur, einn fyrir karla og annar fyrir konur. Vinna kvenna var metin til lægri launa en vinna karla.  Konur voru miklu fremur en karlar í einhæfum störfum, höfðu síður tækifæri til að fá stöðuhækkanir og þáðu að jafnaði lægri laun en karlar.

Norræna ráðherranefndin hefur lagt áherslu á stuðning við verkefni sem taka til framangreindra þátta.  Frá árinu 1989 hefur Norræna ráðherranefndin unnið eftir framkvæmdaáætlunum á sviði jafnréttismála. Fyrsta áætlunin, sem gilti frá 1989-1993 lagði áherslu á að auka þátttöku kvenna í atvinnulífinu og að auka möguleika beggja kynja á því að samræma atvinnu- og einkalíf. Sú áætlun sem þá tók við, frá 1995-2000, byggði á fimm meginmarkmiðum.: Að styrkja þátttöku beggja kynja í ákvarðanatöku á sviði stjórnmála og efnahags; að styrkja áhrif og stöðu beggja kynja á vinnumarkaði - en vinna að jafnlaunaáætlunum er mikilvægur hluti þessa ferlis -, að auka jafnrétti á vinnustöðum; að bæta möguleika fyrir báða foreldra til að samræma kröfur atvinnu- og einkalífs, og loks að hafa áhrif á þróun jafnréttismála á evrópskum og alþjóðlegum vettvangi.

Í núgildandi áætlun Norrænu ráðherranefndarinnar í jafnréttismálum er lögð áhersla á þrjú höfuðatriði. Þau eru: samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða í fjárlagagerð Norðulanda; staða karla í jafnréttismálum, og vernd kvenna gegn ofbeldi, jafnt inni á heimilunum sem utan þeirra.

Á formennskuári okkar Íslendinga hefur verið unnið að fjölmörgum gagnlegum verkefnum en við höfum lagt megináherslu á tvo þætti;  annars vegar á að draga úr kynbundnum launamun og hins vegar á samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs.

Ég tel afar brýnt að brjóta til mergjar ástæður viðvarandi launamunar kynjanna. Það er því sérstakt ánægjuefni að nú hefur tekist samstarf milli jafnréttis- og vinnumálaráðherra Norðurlandanna um norræna rannsókn á launamun kynjanna með það fyrir augum að leita leiða til að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði.  Jafnlaunaverkefnið er á forræði okkar Íslendinga og er reiknað með að niðurstöður liggi fyrir í lok næsta árs.

Samþætting fjölskyldu- og atvinnulífs er að mínu mati eitt brýnasta viðfangsefni jafnréttisbaráttunnar í dag.  Nú er unnið að, undir forystu Íslands, samanburðarrannsókn á fæðingarorlofslöggjöf Norðurlanda. Reynsla okkar af auknum rétti feðra til fæðingarorlofs er mjög góð, þátttaka feðra hefur aukist jafnt og þétt. Foreldra- og fæðingarorlofið opnar feðrum ný og aukin tækifæri til þess að sinna börnum og heimili.  Með þessu erum við að leggja grunn að auknu jafnrétti um ókomin ár.  Það er sérstök upplifun að sjá unga feður ganga um bæinn í miðri viku með barnavagna og  lítil börn sér við hönd og ekki leikur vafi á því að breytingar að þessu leyti hafa ekki síður áhrif á börnin sem þeirra njóta en foreldrana sjálfa og ömmur og afa.

Vinna er nú þegar hafin að undirbúningi næstu jafnréttisáætlunar, og ljóst að þar þarf að huga að mörgum málum. Að mínu mati þarf jafnréttisumræðan að vera virk milli karla og kvenna en ekki eingöngu innbyrðis á milli kvenna.

Norræna samstarfið hefur verið sterkur bakhjarl í jafnréttisumræðu og umbótum landanna á þessu sviði. Norðurlönd hafa lengi verið í fararbroddi í starfi að jafnrétti kynjanna og til þeirra er gjarnan litið sem fyrirmyndar í alþjóðasamfélaginu. Það er okkar að tryggja að svo verði einnig um ókomin ár og hér í dag verða rædd þau mál sem við teljum brýnast að vinna að í næstu framtíð. 

Ég vil þó leyfa mér að ljúka þessum orðum mínum á að minna á það að við megum aldrei gerast værukær. Við sjáum þess merki að við þurfum að herða róðurinn á vissum sviðum og við erum sammála um að sækja enn fram. Vinna að framgangi jafnréttismála er ekki tímabundið átaksverkefni heldur verkefni sem við verðum sífellt að vinna að með mismunandi aðferðum.

Hver er sjálfum sér næstur. Ég er svo lánsamur að eiga börn af báðum kynjum, ólíka einstaklinga með hæfileika á mismunandi sviðum, eins og gildir um okkur öll.  Mér finnst í dag erfitt til þess að hugsa að þegar þau vaxi úr grasi komi þau hugsanlega til með að hljóta mismikla umbun fyrir sambærileg verk og hafa misgóð tækifæri til þess að hasla sér völl á vinnumarkaði. Ég held að við hljótum öll að vera sammála um að það er erfitt að réttlæta slíkt.

Við höfum áfram verk að vinna. Við erum á réttri braut og munum saman vinna ótrauð að framgangi skýrra markmiða. Þessi vettvangur er gott dæmi um það hverju norrænt samstarf getur áorkað.

Ég vil fyrir hönd jafnréttisráðherra Norðurlanda þakka ykkur fyrir að koma hingað í dag til orðræðu um jafnréttismál. Sérstaklega vil ég þakka gestum og frændum frá Norðurlöndum, gestum frá Eystrasaltsríkjunum og Rússlandi fyrir að koma til þessa fundar.  Að lokum vil ég þakka þeim sem störfuðu í nefndinni sem falið var að hafa umsjón með þessari hátíð.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum