Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. febrúar 2005 Félagsmálaráðuneytið

Jafnréttisráðherrar EES-ríkjanna funda í Lúxemborg

Jafnréttisráðherrar ESS-ríkjanna
Jafnréttismálaráðherrar EES-ríkjanna og verðandi ESB-ríkja

Félagsmálaráðherra sótti föstudaginn 4. febrúar síðastliðinn fund jafnréttismálaráðherra Evrópusambandsins í Lúxemborg. Íslandi var, ásamt öðrum EFTA- og EES-ríkjum auk fulltrúa þeirra ríkja sem sótt hafa um aðild að ESB, boðin þátttaka. Fundur ráðherranna var haldinn í framhaldi af ESB-ráðstefnu um þetta málefni, en þar komu saman stjórnmálamenn, embættismenn og fræðimenn.

Tilgangur fundarins var að líta yfir farinn veg og meta árangur af jafnréttisstarfi á þeim tíu árum sem liðin eru frá kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem haldin var í Peking árið 1995. Þá var fundurinn einnig til undirbúnings fundar kvennanefndar SÞ sem haldinn verður í mars næstkomandi. Þar verður annars lagt mat á framvindu þessara mála á þeim tíu árum sem liðin eru frá kvennaráðstefnunni og hins vegar mótuð frekari skref til að framfylgja framkvæmdaáætluninni sem kvennaráðstefnan markaði.

Á fundi ráðherranna, sem og á ráðstefnunni, kom fram að ýmislegt hefur áunnist á vettvangi jafnréttismála innan ESB og á EES-svæðinu á þeim tíu árum sem liðin eru frá kvennaráðstefnunni. Ljóst er að viðfangsefnið hefur fengið meira vægi í opinberri umfjöllun, til dæmis hafa öll ríkin markað málaflokknum skýrari stjórnsýslulegri stöðu en áður. Innleidd hefur verið sameiginleg löggjöf sem ætlað er að stuðla að auknu jafnrétti í samfélaginu og flest ríkin hafa enn fremur sérstaka löggjöf á þessu sviði. Ýmsar aðgerðir hafa leitt til þess að þátttaka kvenna í stjórnmálum og atvinnulífi hefur aukist og mörg verkefni hafa stuðlað að meiri skilningi á mikilvægi þessara mála. Þá hafa alþjóðleg verkefni opnað augu almennings fyrir nauðsyn þess að herða enn frekar baráttuna gegn ofbeldi gegn konum.

Hins vegar kom einnig fram á fundi ráðherranna og ráðstefnunni að margt er enn óunnið á sviði jafnréttismála. Segja má að ríkt hafi mikil eindrægni um að áfram verði að vinna markvisst, bæði á vettvangi Evrópusamvinnunnar sem og á grundvelli Sameinuðu þjóðanna, til þess að auka jafnan rétt kvenna og karla í samfélaginu og vernda þar með grundvallarmannréttindi hvað þetta varðar.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira