Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. febrúar 2005 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Tilkynning frá samgönguráðuneytinu vegna M/S Jökulfells

Í kjölfar sjóslyss, sem varð undan ströndum Færeyja, á leiguskipi Samskipa M/S Jökulfelli, hefur Rannsóknarnefnd sjóslysa boðið fram aðstoð sína við rannsókn slyssins.

Rannsóknarnefnd sjóslysa (RNS) er skipuð af samgönguráðherra, og samanstendur nefndin af fimm kunnáttumönnum, sem allir hafa menntun og starfsreynslu á sviðum sem sérstaklega nýtast við rannsóknir sjóslysa. Lögsaga rannsóknarnefndarinnar tekur til allra íslenskra skipa, svo og allra erlendra skipa í siglingum að og frá landinu þegar sjóslys varðar íslenska hagsmuni.

Í tilfelli M/S Jökulfels þá heyrir rannsókn slyssins ekki undir RNS, því að frá sjónarhóli rannsóknarinnar liggja hagsmunir Íslands strangt til tekið aðeins í farminum sem er um borð. Skipið er leiguskip Samskipa en er skráð á eyjunni Mön, og er áhöfnin skipuð Rússum og Eistum. Ákveðið er að rannsókninni verði stjórnað af rannsóknaraðilum í skráningarlandi skipsins.

Tveir rannsóknaraðilar frá eynni Mön eða "Isle of Man Marine Administration" eru komnir til Færeyja og hafið frumrannsókn á orsökum þess að M/S Jökulfell sökk. Þeir munu að öllum líkindum síðan fara til Lettlands til að rannsaka lestun skipsins.

Rannsóknarnefnd sjóslysa hefur haft samband við rannsóknaraðila í Eistlandi og á eyjunni Mön og boðið fram aðstoð sína við rannsóknina. Verði sú aðstoð ekki þegin hefur RNS beðið um að fá að fylgjast með þeirri rannsókn sem nú fer fram á aðdraganda slyssins, svo hægt verði að draga lærdóm af tildrögum þess svo koma megi í veg fyrir að slíkt hendi aftur.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira