Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. september 2005 Dómsmálaráðuneytið

Tilkynning um breytt verklag

Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun hafa ákveðið í samráði við ráðuneyti dómsmála og félagsmála að breyta verklagi við afgreiðslu umsókna frá ríkisborgurum hinna átta nýju aðildarríkja EES samningsins.

Fréttatilkynning
30/2005

Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun hafa ákveðið í samráði við ráðuneyti dómsmála og félagsmála að breyta verklagi við afgreiðslu umsókna frá ríkisborgurum hinna átta nýju aðildarríkja EES samningsins. Í þessu felst að afgreiðsla umsóknanna mun taka mun skemmri tíma en áður. Þannig er áréttaður forgangur ríkisborgara þessara landa að íslenskum vinnumarkaði umfram ríkisborgara landa utan EES svæðisins. Með þessari ráðstöfun er einnig á skemmri tíma en áður unnt að koma til móts við óskir atvinnulífsins um leyfi til að ráða erlent vinnuafl.

Til að ná fram þessum markmiðum hafa Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun breytt verkferlum sínum og dregið úr skjalakröfum gagnvart ríkisborgurum nýju EES ríkjanna á þann veg að þeir standi jafnfætis öðrum EES ríkisborgurum að því er þessar kröfur varðar. Hefur það í för með sér að ekki verður óskað eftir staðfestingu á tryggu húsnæði, sjúkratryggingu, sakavottorði og heilbrigðisvottorði eins og verið hefur heldur einungis ráðningarsamningi, passamynd og afriti af vegabréfum/ferðaskilríkjum.

Í allt að fjórar vikur munu Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun veita undanþágu frá þeirri meginreglu að dvalar- og atvinnuleyfi verði að hafa verið gefin út áður en erlendur starfsmaður frá nýju aðildarríkjunum átta kemur til landsins. Með þessu vilja stofnanirnar gefa atvinnurekendum kost á að bjóða þeim starfsmönnum sem hafa komið frá þessum ríkjum á síðustu mánuðum á grundvelli þjónustusamninga, störf og starfskjör með hefðbundnum hætti. Undanþáguheimildin gildir einvörðungu um þá sem hafa komið til landsins fyrir 7. september 2005 í þeim tilgangi að starfa hérlendis. Undanþágan verður eingöngu í gildi til og með 7. október 2005.

Við afgreiðslu umsókna verður áfram litið til aðstæðna á vinnumarkaði hverju sinni. Áður en sótt er um atvinnuleyfi ber atvinnurekanda að hafa leitað til svæðisvinnumiðlunar eftir vinnuafli nema slík leit verði fyrirsjáanlega árangurslaus að mati Vinnumálastofnunar. Hafi vinnuveitandi ekki leitað til svæðisvinnumiðlunar, mun verða litið á umsókn um atvinnuleyfi sem beiðni um þjónustu svæðisvinnumiðlunar og jafnframt ber að leita umsagnar stéttarfélags.

Reykjavík, 7. september 2005Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira