Hoppa yfir valmynd

Frétt

23. mars 2006 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Samgönguþing 5. april 2006

Samgönguráðuneytið boðar til samgönguþings 5. apríl á Hótel Selfossi.

Samgönguráð stendur fyrir samgönguþingi miðvikudaginn 5. apríl næst komandi. Samgönguráð starfar samkvæmt lögum um samgönguáætlun og hefur umsjón með gerð samgönguáætlunar og gerir tillögu um hana til samgönguráðherra, sem leggur samgönguáætlum sem tillögu til þingsályktunar fyrir Alþingi. Í samgönguráði sitja auk formanns, sem skipaður er af samgönguráðherra, flugmálastjóri, siglingamálastjóri og vegamálastjóri. Nú er unnið að undirbúningi að gerð samgönguáætlunar 2007-2018 og er samgönguþingið haldið til þess að kynna stöðu vinnunnar við áætlunina og fá fram sjónarmið og viðbrögð hagsmunaaðila og notenda.

Á samgönguþingi verður gerð grein fyrir drögum að helstu forsendum og markmiðum samgönguáætlunar, þá verða fyrirlesarar úr hópi fræðimanna og notenda. Meðal fyrirlesara er Hartmut H. Topp, prófessor við Tækniháskólann í Kaiserslautern í Þýskalandi, sem mun halda erindi um þróun samgangna séð frá árinu 2030 til dagsins í dag. Að loknum framsöguerindum verða almennar umræður.

Samgönguþing er öllum opið og aðgangur er ókeypis. Væntanlegir þátttakendur eru vinsamlegast beðnir um að skrá sig á netfangið [email protected] fyrir 3. apríl.

Dagskráin er eftirfarandi:

13:00 Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra - Ávarp

13:10 Ingimundur Sigurpálsson, formaður samgönguráðs - Vinna við gerð samgönguáætlunar

13:30 Hartmut H. Topp, Prof. Dr. Ing. Technische Universität Kaiserslautern - Mobility and Transport - seen from the year 2030

14:00 Þorgeir Pálsson, flugmálastjóri - Stefnumörkun í flugmálum til 2018

14:20 Hermann Guðjónsson, siglingamálastjóri - Stefnumörkun í siglingamálum til 2018

14:40 Jón Rögnvaldsson, vegamálastjóri - Stefnumörkun í vegamálum til 2018

15:00 Fundarhlé

15:20 Hreinn Haraldsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar - Áætlanir um breytta gjaldtöku af umferð

15:40 Bjarni Reynarsson, ráðgjafi hjá Landráði - Umfjöllun um ferðatíma

15:55 Axel Hall, hagfræðingur hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands - Aðferðir við forgangsröðun framkvæmda

16:10 Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins - Samgöngustefna 2007 - 2018 frá sjónarhóli atvinnuveganna

16:20 Birna Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar - Samgöngustefna 2007 - 2018 frá sjónarhóli sveitarfélags á landsbyggðinni

16:30 Árni Þór Sigurðsson, borgarfulltrúi - Samgöngustefna 2007 - 2018 frá sjónarhóli sveitarfélags á höfuðborgarsvæðinu

16:45 Almennar umræður

Þingslit áætluð um klukkan 17:30

Fundarstjóri verður Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri í samgönguráðuneytinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira