Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. apríl 2006 Innviðaráðuneytið

Áþreifanlegur árangur af starfi um öryggi sjófarenda

Næst síðasti fundurinn í röð málfunda um öryggi sjómanna var haldinn í Hafnarfirði þriðjudaginn 4. apríl. Slíkir fundir hafa í vetur verið haldnir í flestum landsfjórðungum og hafa útgerðarmenn og sjómenn sótt þá allvel.

Fram hefur komið á þessum fundum að mun færri sjómenn hafa slasast að meðaltali á ári síðustu 20 árin en á árunum 1965 til 1984. Á þessum fundum hafa fulltrúar samgönguráðuneytisins, Siglingastofnunar Íslands, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Landhelgisgæslunnar auk sjómanna farið yfir ýmis atriði varðandi áætlun og verkefni um öryggi sjófarenda. Í lok funda hafa síðan orðið ágætar umræður og komið fram ýmsar ábendingar um verkefnin.

Fundir hafa verið haldnir á Grundarfirði, Þórshöfn, Dalvík, Höfn, Grindavík, Vestmannaeyjum og nú síðast í Hafnarfirði. Ekki hefur enn tekist að halda fund á Vestfjörðum þar sem aflýsa varð fundi á Ísafirði vegna veðurs. Stefnt er að bæta úr því innan tíðar. Auk samgönguráðuneytisins standa að fundunum Slysavarnafélagið Landsbjörg, Landhelgisgæsla Íslands, Samband íslenskra kaupskipaútgerða, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Landssamband smábátaeigenda, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Vélstjórafélag Íslands, Sjómannasamband Íslands og Siglingastofnun Íslands.

Samgönguáætlun áranna 2003 til 2014 gerir ráð fyrir að verja skuli alls 235 milljónum króna til langtímaáætlunar um öryggi sjófarenda. Á fyrsta tímabilinu sem lýkur á þessu ári verður varið 75 milljónum króna til verkefnisins og gert er ráð fyrir 80 milljóna króna framlagi næstu tvö fjögurra ára tímabil.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra flutti ávarp í upphafi fundarins í Hafnarfirði og sagðist hann fyrir nokkrum árum hafa sett af stað vinnu við að fara yfir hvað væri mikilvægast varðandi öryggismál sjófarenda. Málið hefði m.a. verið rætt á Alþingi og í samgönguáætlun sem tæki til allra þátta samgangna væri sérstakur liður, langtímaáætlun um öryggi sjómanna, og veitt til hans ákveðnu fjármagni. Siglingastofnun Íslands hefði síðan verið falin framkvæmd áætlunarinnar og væri verkefnastjórn til ráðgjafar og eftirlits. Hann sagði áætlunina unna í nánu samráði við helstu samtök sjómanna og útgerðarmanna og sagði hann alla þessa aðila hafa unnið gott og mikið starf

Svana Margrét Davíðsdóttir, lögfræðingur hjá samgönguráðuneytinu sem jafnframt er formaður verkefnisstjórnarinnar, fór á fundinum yfir helstu atriði áætlunarinnar en þar eru sett fram 9 áhersluatriði sem öll miða að því að draga úr slysum meðal sjófarenda. Þau snúast um menntun og þjálfun sjómanna, öryggi farþegaskipa og farþegabáta, átaksverkefni í fræðslu og áróðri, gerð fræðsluefnis og leiðbeininga, söfnun og miðlun upplýsinga, stöðugleika skipa og báta, öryggis- og gæðastjórnunarkerfi, lög og reglur um eftirlit með skipum og rannsóknir og öryggismál almennt. Svana Margrét nefndi sem dæmi um árangur vinnu síðustu þriggja ára að árin 1965 til 1984 hefðu að meðaltali farist um 17 sjómenn á ári. Síðustu 20 árin hefur þessi tala lækkað í 5 sjómenn á ári að meðaltali.

Jón Bernódusson, verkfræðingur hjá Siglingastofnun Íslands, skýrði frá stöðu verkefna áætlunar um öryggi sjófarenda á árunum 2005 til 2006. Gísli Viggósson, einnig verkfræðingur hjá Siglingastofnun, hefur setið flesta fundina og fjallað um upplýsingakerfi fyrir sjófarendur um veður og sjólag. Meðal verkefna Siglingastofnunar hafa verið grunnnámskeið í stöðugleikafræðum sem hægt er að taka í fjarnámi, útgáfa kennsluefnis og handbóka. Á næstunni verður m.a. unnið að gerð námsgagna fyrir eigendur skemmtibáta og áhættumati fyrir siglingar farþegaskipa. Jón kynnti einnig á fundinum vef Siglingastofnunar Íslands um veður og sjólag.

Þá hélt Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna, erindi um nýjungar í öryggisfræðslu sjómanna og Ásgrímur Ásgrímsson, framkvæmdastjóri Vaktstöðvar siglinga, sagði frá starfsemi hennar. Í lok fundarins urðu síðan nokkrar umræður um öryggismálin, meðal annars tíðni tilkynningaskyldu fiskiskipa miðað við önnur skip, öryggi skemmtibáta og fleira.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum