Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. maí 2006 Félagsmálaráðuneytið

Félagsmálaráðherra á jafnréttisráðherrafundi í Noregi

Félagsmálaráðherra fjallaði í dag um jafnréttismál á fundum með ráðherrum Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna og lagði sérstaka áherslu á þátttöku ungs fólks í jafnréttismálum, jákvæð áhrif fæðingarorlofs feðra og mikilvægi þess að karlar tækju aukinn þátt í umfjöllun um jafnréttismál.

Jón Kristjánsson félagsmálaráðherra sat í dag fund jafnréttisráðherra á Norðurlöndum sem haldinn var í Tönsberg í Noregi. Í kjölfar norræns fundar var jafnframt haldinn sérstakur fundur með jafnréttisráðherrum baltnesku landanna.

Á norræna ráðherrafundinum var fjallað um konur og völd, ungt fólk og kynferði og vændi á Norðurlöndunum.

Í umfjöllun um konur og völd ákváðu jafnréttisráðherrarnir að fela embættismannanefnd Norrænu ráðherranefndarinnar að kanna möguleika á að því að hrinda af stað verkefni árið 2007 er varðaði leiðtoga á Norðurlöndunum með hliðsjón af kynferði. Verkefnið yrði unnið í samvinnu við Norrænu nýsköpunarstofuna og Norrænu rannsóknarstofuna í kynja- og kvennafræðum.

Í umræðum um ungt fólk og kynferði lagði Jón Kristjánsson áherslu á að unnið yrði áfram með hina svonefndu hvítbók unga fólksins um jafnréttismál og þakkaði sérstaklega framlag þess unga fólks sem tók þátt en það voru fulltrúar frá hverju Norðurlandanna. Ráðherrann tók sérstaklega undir eina af tillögunum sem fulltrúar Íslendinga lögðu fram en þeir bentu á nauðsyn þess að auka jafnréttisfræðslu á öllum stigum skólakerfisins. Ráðherrann greindi frá því að í félagsmálaráðuneytinu væri í undirbúningi vinna að gerð fræðsluefnis um jafnréttismál þar sem sérstaklega væri haft til fyrirmyndar fræðsluefni sem Danir gerðu á sínu formennskuári í fyrra.

Í umræðum um vændi á Norðurlöndum tók Jón Kristjánsson félagsmálaráðherra upp umræðuna um vændi í tengslum við heimsmeistaramótið í knattspyrnu í Þýskalandi. Hann kvaðst telja rétt að íþróttahreyfingin beitti sér af alefli gegn vændi og mansali í tengslum við stórmót í íþróttum.

Á fundi jafnréttisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna var samstarfsáætlun á sviði jafnréttismála fyrir árin 2007–2008 samþykkt. Í umræðu um hvernig auka mætti þátttöku og ábyrgð feðra í uppeldi barna sinna benti félagsmálaráðherra á jákvæða reynslu Íslendinga af fæðingarorlofi feðra. Hann kvað mjög mikilvægt að feður nýttu sér fæðingarorlofið og benti á að íslenskir feður gerðu það í mjög miklum mælum eða um 90% feðra nýfæddra barna. Ráðherrann sagðist telja að þetta væri lykilatriði í því að styrkja stöðu kvenna á vinnumarkaði og eyða kynbundnum launamun.

Jón Kristjánsson benti einnig á að til þess að hægt væri að ná árangri í jafnréttismálum væri afar mikilvægt að bæði konur og karlar tækju þátt og bæru ábyrgð. Hann greindi frá ráðstefnunni „Karlar um borð“, sem haldin hefði verið 1. desember sl. á Íslandi og jafnframt að fyrirhugað væri að halda alþjóðlega karlaráðstefnu um jafnréttismál hér á landi 1. desember 2006 og hvatti hann jafnréttisráðherrana eindregið til að sækja hana.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira