Hoppa yfir valmynd

Frétt

19. júní 2006 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Ferjuhöfn verði byggð í Bakkafjöru

Starfshópur sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra skipaði í maí 2004 til að fjalla um samgöngur við Vestmannaeyjar leggur til í lokaskýrslu sinni að skoðuð verði nánar sú lausn að byggja ferjuhöfn í Bakkafjöru. Jafnframt eru lagðar til nokkrar frekari athuganir áður en yfirvöld taka ákvörðun.

Starfshópnum var falið að meta fimm kosti:

  1. Núverandi stöðu þar sem Herjólfur og flugsamgöngur yrðu meginstoðir.
  2. Endurnýjun Herjólfs.
  3. Ný ferjuhöfn á Bakkafjöru og viðeigandi skip í stað Herjólfs.
  4. Jarðgöng milli lands og Eyja.
  5. Efling flugsamgangna.

Auknar kröfur hafa komið fram á síðustu árum um að bæta samgöngur við Vestmannaeyjar. Þrátt fyrir reglulegt áætlunarflug og að ferðum Herjólfs hafi verið fjölgað næst ekki í öllum tilvikum að fullnægja flutningaþörf og áfram standa kröfur um meiri þjónustu og styttingu ferðatíma milli lands og Eyja. Til að ná þessu markmiði telur nefndin tvo kosti vænlegasta, annars vegar að byggja ferjulægi í Bakkafjöru og fá viðeigendi ferju til siglinganna og hins vegar að fá nýjan og hraðskreiðari Herjólf til áframhaldandi siglinga milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar.

Núverandi ferðatími milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur er þrjár klst. og 30 mínútur, siglingin tekur tvær klst. og 45 mínútur og akstur 45 mínútur. Með ferjusiglingu í Bakkafjöru myndi ferðatíminn styttast um eina klst. og 15 mínútur, siglingin tæki 30 mínútur og akstur um eina klst. og 45 mínútur. Verði Herjólfur endurnýjaður eða nýr Herjólfur fenginn myndi ferðatíminn í heild styttast um 35 mínútur.

Í skýrslu starfshópsins segir um jarðgöng að þótt tæknilega sé mögulegt að grafa göng milli lands og Eyja séu jarðfræðilegar aðstæður mjög erfiðar. Raunhæfar kostnaðartölur um slíka vegtengingu séu á bilinu 40 til 70 milljarðar króna miðað við athuganir sem gerðar hafa verið.

Um áætlunarflugið er vísað í umfjöllun fyrri starfshóps og talið að þar sem fluginu sé sinnt á markaðsforsendum séu ekki efni til að beita opinberum ráðstöfunum til að lækka fargjöld eða efna til útboðs samkvæmt reglum Evrópska efnahagssvæðisins.

Að öllu samanlögðu er það álit starfshópsins að sú lausn verði könnuð nánar að byggja ferjuhöfn í Bakkafjöru. Lagt er til að ráðist verði í eftirfarandi athuganir áður en samgönguyfirvöld taka ákvörðun:

1. Siglingastofnun verði falið að ljúka nauðsynlegum frumrannsóknum á Bakkafjöru og að þar til bærir erlendir aðilar verði fengnir til að fara yfir niðurstöðurnar.

2. Fram fari áhættumat á siglingum milli Vestmannaeyja og Bakkafjöru.

3. Fram fari þarfagreining á nýrri ferju sem sigla myndi milli Vestmannaeyja og Bakkafjöru til að tryggja að hún anni flutningaþörfinni.

4. Kannað verði hvort hagkvæmt sé að byggja stærri höfn í Bakkafjöru en Siglingastofnun hefur gert ráð fyrir.

5. Metin verði áhrif Bakkafjöruhafnar á þróun byggðar í Vestmannaeyjum og byggðar í landi.

Starfshópurinn telur að verulegar umbætur geti orðið með tilkomu ferjuhafnar í Bakkafjöru og að styttri ferðatími gæti haft í för með sér nýja möguleika í samvinnu sveitarfélaga, fleiri atvinnutækifæri þar sem atvinnusvæði tengjast, aukin viðskipti og fleiri sóknarfæri í ferðaþjónustu.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra mun á næstunni kynna í ríkisstjórn skýrslu nefndarinnar og tillögur sínar um næstu skref.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira