Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. júlí 2006 Innviðaráðuneytið

Breytingar á reglugerðum um Íbúðalánasjóð

Íbúðalánasjóður
Íbúðalánasjóður

Félagsmálaráðherra hefur undirritað þrjár reglugerðir sem fela í sér breytingar á lánveitingum Íbúðalánasjóðs. Einnig hefur ráðherra samþykkt tillögu stjórnar Íbúðalánasjóðs um hækkun vaxtaálags sjóðsins.



Breyting á reglugerð um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, nr. 522/2004, með síðari breytingum, og ný reglugerð um lánshlutfall og fjárhæð ÍLS-veðbréfa.

Í reglugerðunum er lánshlutfall almennra íbúðalána Íbúðalánasjóðs lækkað úr 90% af kaupverði íbúðar í 80%. Einnig er hámarkslán Íbúðalánasjóðs lækkað úr 18 milljónum króna í 17 milljónir króna. Um er að ræða tímabundna aðgerð sem er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Jafnhliða var gerð sú breyting að lánafyrirgreiðsla Íbúðalánasjóðs takmarkast við að sami aðili geti ekki átt fleiri en eina íbúð með áhvílandi láni frá sjóðnum. Við sérstakar aðstæður getur sjóðurinn þó veitt lán út á aðra íbúð. Loks er kveðið á um að ekki sé unnt að lengja eða stytta lánstíma ÍLS-veðbréfs ef lántaki hefur undirritað yfirlýsingu um að hann afsali sér rétti til uppgreiðslu láns án sérstakrar þóknunar, en þeir lántakar sem þetta á við um greiða lægra vaxtaálag en almennt gildir. Reglugerðirnar tóku gildi 1. júlí sl.

Breyting á vaxtaálagi ÍLS-veðbréfa.

Stjórn Íbúðalánasjóðs hefur gert tillögu til félagsmálaráðherra um að almennt vaxtaálag ÍLS-veðbréfa verði 0,70% af lánsfjárhæð í stað 0,60% áður. Tillagan felur einnig í sér að ef lántaki kýs að afsala sér rétti til að greiða veðbréfið upp fyrir lok lánstíma verður vaxtaálag 0,45% af lánsfjárhæð í stað 0,35% áður.

Félagsmálaráðuneytið hefur fallist á framkomna tillögu og verður almennt vaxtaálag ÍLS-veðbréfa því 0,70% af lánsfjárhæð þar til annað verður ákveðið en ef lántaki kýs að afsala sér rétti til að greiða veðbréfið upp fyrir lok lánstíma verður vaxtaálagið 0,45% af lánsfjárhæð. Markmið hækkunarinnar er að bregðast við breytingum í rekstrarumhverfi sjóðsins með því að treysta rekstrarstöðu hans og áhættustýringu til lengri tíma litið.

Breytingar á reglugerð um lánaflokka Íbúðalánasjóðs, nr. 458/1999, með síðari breytingum.

Félagsmálaráðherra hefur í dag undirritað reglugerð um breytingu á reglugerð um lánaflokka Íbúðalánasjóðs. Í reglugerðinni felast einkum þrjár meginbreytingar frá gildandi reglugerð. Í fyrsta lagi er lánshlutfall vegna almennra leiguíbúða lækkað úr 90% í 80%, líkt og þegar hefur verið gert varðandi almenn lán Íbúðalánasjóðs. Í öðru lagi er Íbúðalánasjóði heimilað að veita lán til byggingar þjónustukjarna fyrir aldraða, en nokkuð er um að sveitarfélög hafi óskað eftir slíkum lánum frá sjóðnum. Í þriðja lagi er brunabótamatsviðmiði samkvæmt reglugerðinni breytt til samræmis við almennar reglur sjóðsins. Reglugerðin tekur gildi við birtingu.

Sjá einnig:

Reglugerð um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, nr. 522/2004, sbr. 824/2004, 958/2004, 1017/2005, 300/2006 og 539/2006.

Reglugerð um lánshlutfall og hámarksfjárhæð ÍLS-veðbréfa, nr. 540/2006.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum