Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. október 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Styrkir til rannsókna á sviði jafnréttismála

Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, afhendir styrki til 5 rannsókna á sviði jafnréttismála.
Styrkir til rannsókna á sviði jafnréttismála

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra afhendir styrki til fimm rannsókna á sviði jafnréttismála.

Á síðasta ári samþykkti ríkisstjórn Íslands að stofna sérstakan rannsóknarsjóð, Jafnréttissjóð, sem ætlað er að veita fé til rannsókna á á stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði. Til rannsókna í þessu sambandi teljast meðal annars rannsóknir á stöðu kynjanna á vinnumarkaði og enn fremur rannsóknir á áhrifum gildandi löggjafar, svo sem ákvæða laga um fæðingar- og foreldraorlof og um sjálfstæðan rétt feðra til fæðingarorlofs. Sérstaklega er horft til þátttöku ungra vísindamanna í þessum rannsóknarverkefnum.

Markmið með stofnun Jafnréttissjóðs er að tryggja að hér á landi verði unnar vandaðar rannsóknir á stöðu kynjanna á vinnumarkaði en slíkar rannsóknir geta verið lykill að bættri stöðu kvenna og karla og flýtt fyrir framgangi jafnréttis. Sjóðurinn starfar samkvæmt reglum um úthlutun styrkja Jafnréttissjóðs nr. 513/2006.

Að þessu sinni bárust 18 umsóknir og í ár fá fimm verkefni styrk samtals að fjárhæð 8,9 milljónir króna og voru styrkirnir afhentir og verkefnin voru kynnt við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu í morgun.

Jafnréttissjóður er vistaður í forsætisráðuneytinu og skipar forsætisráðherra formann sjóðsins sem er Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, lektor við viðskiptadeild Háskóla Íslands. Aðrir í stjórn sjóðsins eru Aðalheiður Inga Þorsteinsdóttir sagnfræðingur, tilnefnd af menntamálaráðherra og Fanný Gunnarsdóttir, formaður jafnréttisráðs, tilnefnd af félagsmálaráðherra. Varamenn eru Fjóla Agnarsdóttir, hagfræðingur í forsætisráðuneytinu, Bolli Thoroddsen verkfræðinemi og Ingi Valur Jóhannsson, deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu.

Ávarp félagsmálaráðherra

Þeir sem fengu styrki eru:

  • Agnes Sigtryggsdóttir; Kynbundið starfsval og gildi – samband launa, viðurkenningar og verðleika.
  • Þorlákur Karlsson; Óútskýrður launamunur kynjanna.
  • Guðný Björk Eydal; Umönnun og atvinnuþátttaka foreldra barna 3 ára og yngri – hvaða áhrif hafa lög um foreldra- og fæðingarorlof haft?
  • Auður Arna Arnardóttir; Reynsla af fæðingarorlofi og samspil vinnu og einkalífs frá sjónarhóli feðra og maka þeirra.
  • Haukur Freyr Gíslason; Félagsleg áhrif á launavæntingar kynjannna.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum