Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. nóvember 2006 Félagsmálaráðuneytið

Stórt skref í rannsóknum á fötlun og þroskafrávikum

Magnús Stefánsson, Kristín Ingólfsdóttir og Stefán J. Hreiðarsson
Magnús Stefánsson, Kristín Ingólfsdóttir og Stefán J. Hreiðarsson

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra, Stefán J. Hreiðarsson, forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafastöðvar ríkisins, og Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor undirrituðu í dag samstarfssamning sem Greiningar- og ráðgjafarstöðin og Háskóli Íslands hafa gert með sér um kennslu og rannsóknir.

Tilgangurinn með samningnum er að efla samstarf Háskóla Íslands og Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar með það fyrir augum að nýta sem best sérþekkingu, kunnáttu, efnivið og aðstöðu sem samningsaðilar búa yfir. Samningurinn er nýlunda hvað varðar samstarf þessara tveggja mikilvægu stofnana. Með honum er styrkt með formlegum hætti miðlun, þróun og rannsóknir á sérfræðilegri þekkingu á sviði fötlunar, einkum barna.

Markmið samningsins eru að styrkja nýliðun fagfólks í starfi með fötluðum börnum, að starfsfólk við greiningu, ráðgjöf og framkvæmd úrræða á fagsviðum Greiningarstöðvarinnar og nemendur og starfsfólk Háskólans hafi greiðan og gagnkvæman aðgang að sérþekkingu og að stuðla að framgangi vísindarannsókna faggreina tengdum greiningu, ráðgjöf og framkvæmd úrræða.

Við undirritunina sagði félagsmálaráðherra: „Megi þessi samstarfssamningur verða leiðarljós sem lýsir okkur leið til fleiri slíkra samninga. Ég er þess fullviss að frjótt og uppbyggilegt samstarf starfsfólks fræðastofnana og sérfræðinga í daglegum störfum sé til þess fallið að styrkja þjónustu hins opinbera, hvort sem er á sviði fötlunar eða á öðrum vettvangi þar sem við viljum vera í fremstu röð.“

Háskólarektor þakkaði Stefáni Hreiðarssyni fyrir hans frumkvæði og sýn á mikilvægi menntunar og þekkingar. Greiningarstöðin hefði átt margvíslegt samstarf við Háskóla Íslands, bæði læknadeild og félagsvísindadeild, meðal annars með starfsþjálfun nemenda. Einnig hefur starfsfólk stöðvarinnar komið að kennslu við Háskólann. Það sé því afar ánægjulegt að samstarfið hafi verið formgert með þessum hætti.

Stefán J. Hreiðarsson, forstöðumaður Greiningarstöðvarinnar, sagði samstarfssamninginn hafa mikið gildi og færa stöðina stóru skrefi nær sinni framtíðarsýn um fræðslu, rannsóknir og þekkingu. Undirritun samningsins væri stór stund í sögu stöðvarinnar.

Hlutverk Háskóla Íslands vegna framkvæmdar samningsins er einkum að annast menntun í félags- og heilbrigðisvísindagreinum, bera faglega ábyrgð á kennslu, námsefni, efnistökum og prófum, standa fyrir grunnrannsóknum og viðfangsbundnum rannsóknum í félags- og heilbrigðisvísindagreinum, sjá til þess að starfsfólk sem annast kennslu og rannsóknir á vegum Háskólans uppfylli akademískar kröfur og taka þátt í þróun greiningar- og ráðgjafarstarfs.

Hlutverk Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins vegna framkvæmdar samningsins er einkum að annast greiningu barna og ungmenna með alvarlegar þroskaraskanir sem er vísað til athugunar að lokinni frumgreiningu, sinna ráðgjöf og fræðslu til viðkomandi einstaklings, foreldra hans eða annarra aðstandenda, enn fremur að veita þessum aðilum þjónustu varðandi viðeigandi meðferð, þjálfun og önnur úrræði sem þörf er á, gefa tilvísanir til annarra meðferðaraðila og stofnana í því skyni að hlutaðeigandi njóti þar þeirrar þjónustu sem þörf er á hverju sinni, veita langtímaeftirfylgd vegna þeirra einstaklinga sem búa við óvenju flóknar eða sjaldgæfar þroskaraskanir, veita faglega aðstoð og ráðgjöf til samstarfsaðila, afla og miðla þekkingu um fötlun og alvarlegar þroskaraskanir, standa fyrir þróun, rannsókn og dreifingu á aðferðum og gögnum til greiningar á fötlun og þroskaröskun og á mismunandi meðferðaraðferðum, stunda fræðilegar rannsóknir á sviði áunninnar og meðfæddrar fötlunar og þroskaröskunar og þátttöku í alþjóðastarfi, meðal annars á sviði fátíðrar fötlunar og veita fræðslu á sviði fötlunar og þroskaröskunar og útgáfu fræðsluefnis.

Samningur þessi, sem er til fimm ára, gildir um samskipti og samvinnu Háskóla Íslands og Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar um kennslu, rannsóknir og þjálfun í félags- og heilbrigðisvísindagreinum sem kenndar eru við Háskólann og stundaðar eru innan Greiningarstöðvarinnar. Samningurinn tekur einnig til samvinnu um þróun þeirrar þjónustu sem veitt er á fagsviðum greiningar og ráðgjafar, þar á meðal endurmenntunar starfsfólks.Magnús Stefánsson, Kristín Ingólfsdóttir og Stefán J. Hreiðarsson
Magnús Stefánsson, Kristín Ingólfsdóttir og Stefán J. Hreiðarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira