Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. nóvember 2006 Innviðaráðuneytið

Siglingaverndaráætlun fyrir Ísland staðfest

Siglingaverndaráætlun Íslands var nýlega undirrituð en hún snýst um verndun almannahagsmuna meðal annars vegna hugsanlegrar ógnar af völdum hryðjuverka. Grunnur áætlunarinnar er reglugerð samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um eflingu verndar skipa og hafna þar sem kveðið er á um að aðildarríki ESB og EES skuli leggja fram slíka áætlun.

Að áætluninni unnu fulltrúar eftirtalinna aðila í umboði samgönguráðuneytisins: Siglingastofnunar Íslands, Ríkislögreglustjórans, Tollstjórans í Reykjavík, Landhelgisgæslu Íslands, Hafnasambands sveitarfélaga og Sambands íslenskra kaupskipaútgerða. Siglingastofnun Íslands hefur yfirumsjón með gerð áætlunarinnar. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra undirritaði áætlunina ásamt forsvarsmönnum framangreindra aðila.

Íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að koma upp viðunandi aðstöðu, framkvæma skoðanir og hafa eftirlit með framkvæmd siglingaverndar hér á landi. Nú þegar hafa 29 hafnir og 79 hafnaraðstöður komið sér upp þar til gerðri aðstöðu og búnaði vegna siglinga- og hafnarverndar eins og áskilið er í áætluninni.

Í siglingaverndaráætluninni er að finna lýsingu á skipulagi og framkvæmd siglingaverndar á Íslandi. Meginmarkmið hennar er að gefa yfirlit um það með hvaða hætti hinar alþjóðlegu reglur um siglingavernd voru innleiddar og hvernig þeim er framfylgt ásamt því að gera grein fyrir þeim stofnunum sem sinna þessum verkefnum. Ennfremur er lýst þeim aðstæðum og þáttum í rekstri hafna og skipa hér á landi sem teljast mestu skipta fyrir skipulag og framkvæmd siglingaverndar. Innihald áætlunarinnar er trúnaðarmál öðrum en þeim sem eiga beina aðild að henni.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum