Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. desember 2006 Innviðaráðuneytið

Lög um breytingu á lögheimilislögum og skipulags- og byggingarlögum

Alþingi hefur samþykkt breytingu á lögum um lögheimili og skipulags- og byggingarlögum.

Með lögunum er bætt við 1. gr. lögheimilislaga ákvæði um að dvöl í húsnæði sem byggt er á svæði sem skipulagt er sem frístundabyggð geti ekki talist ígildi fastrar búsetu og að skráning lögheimilis í slíku húsnæði verði af þeirri ástæðu óheimil. Til að tryggja skýrleika laga eru jafnframt gerðar breytingar á skipulags- og byggingarlögum þar sem einkum er fjölgað orðskýringum. Með lagabreytingunni er brugðist við dómi Hæstaréttar frá 14. apríl 2005 í svonefndu Bláskógabyggðarmáli, mál nr. 474/2004.

Lagabreytingin mun ekki hafa þau áhrif að útilokað verði að fá samþykki fyrir lögheimilisskráningu í skipulagðri frístundabyggð ef viðkomandi einstaklingur á þar fasta búsetu. Slík skráning getur hins vegar ekki farið fram fyrr en sveitarstjórn hefur samþykkt breytingu á skipulagi fyrir viðkomandi svæði. Jafnframt útilokar breytingin ekki skráningu lögheimilis í sumarhúsum sem standa utan skipulagðrar frístundabyggðar ef viðkomandi einstaklingur á þar fasta búsetu.

Þess má ennfremur geta að félagsmálaráðherra hefur skipað starfshóp sem mun fjalla um ólögmæta búsetu í atvinnuhúsnæði en fyrrgreindur dómur Hæstaréttar er einnig talinn geta haft áhrif á rétt til skráningar lögheimilis í slíku húsnæði. Í starfshópnum eiga sæti þau Björn Karlsson, brunamálastjóri, Ellý K. Guðmundsdóttir, sviðsstjóri umhverfissviðs Reykjavíkurborgar, Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfjarðarkaupstað og formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, og Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, sem er formaður. Hlutverk starfshópsins er að safna upplýsingum um umfang ólögmætrar búsetu í atvinnuhúsnæði, kanna hvort ákvæði laga veita stjórnvöldum nægilegar heimildir til að hafa eftirlit með slíkri búsetu og meta, í samráði við hlutaðeigandi stjórnvöld, hvort úrræði þeirra séu nægileg til að bregðast við þegar þess er þörf. Sérstök áhersla skal lögð á að afla upplýsinga um hvort algengt sé að fólk búi við ófullnægjandi eða hættulegar húsnæðisaðstæður og gera tillögur til úrbóta. Starfshópurinn skal skila tillögum til félagsmálaráðherra um nauðsynlegar aðgerðir og hugsanlegar laga- eða reglugerðarbreytingar fyrir lok janúarmánaðar 2007.


Lög um breytingu á lögum um lögheimili og skipulags- og byggingarlögum

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira