Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. janúar 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Kvenréttindafélagi Íslands færð gjöf á 100 ára afmæli

Á 100 ára afmælishátíð Kvenréttindafélags Íslands í Ráðhúsi Reykjavíkur laugardaginn 27. janúar síðastliðinn tilkynnti Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra að ríkisstjórnin hefði að tillögu Magnúsar Stefánssonar félagsmálaráðherra ákveðið að færa félaginu 1 milljón króna að gjöf í tilefni af þessum merku tímamótum.

Í alþjóðlegum samanburði standa Íslendingar framarlega á mörgum sviðum þegar jafn réttur kvenna og karla er metinn. Enn gætir þó stöðnunar á vissum sviðum, svo sem varðandi jöfnun kynbundins launamunar, og á það bæði við hér á landi og í nágrannalöndum okkar. Á vegum ríkisstjórnarinnar og einstakra ráðuneytið er unnið að mörgum mikilvægum verkefnum í því skyni að jafna mun kynjanna. Aðrir aðilar, svo sem Alþingi, sveitarfélög og frjáls félagasamtök, gegna jafnframt veigamiklu hlutverki. Með gjöf sinni til Kvenréttindafélagsins undirstrikar ríkisstjórnin mikilvægi framlags Kvenréttindafélagsins til jafnréttisbaráttu á Íslandi.

Stofnfundur 1907

Sunnudaginn 27. janúar 1907 komu nokkrar konur saman að Þingholtsstræti 18 í Reykjavík, heimili Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Til fundarins boðuðu Bríet Bjarnhéðinsdóttir og Sigríður Hjaltadóttir Jensson. Telst þessi fundur stofnfundur Kvenréttindafélags Íslands þar sem samþykkt var samhljóða að stofna félagið.

Markmið Kvenréttindafélags Íslands hefur frá upphafi verið að vinna að jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum þjóðlífsins. Mörg af stefnumálum félagsins hafa verið lögfest en viðfangsefnin eru enn fjölmörg. Ljóst er að starfsemi félagsins hefur verið órjúfanlegur hluti af jafnréttisbaráttu Íslendinga síðastliðna öld. Mörg skref voru stigin í upphafi síðustu aldar, skömmu eftir stofnun Kvenréttindafélagsins, og ber þar einkum að nefna að konur öðluðust kosningarrétt til Alþingis árið 1915 og fullan kosningarrétt tíu árum síðar.

Kvenréttindafélag Íslands vinnur enn í dag ötult starf við að auka réttindi kvenna.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum