Hoppa yfir valmynd

Frétt

26. febrúar 2007 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Þörf könnuð á uppbyggingu fyrir skemmtiferðaskip

Skipaður hefur verið starfshópur til að skilgreina þarfir varðandi uppbyggingu hafna og þjónustu við skemmtiferðaskip sem leggja leið sína til Íslands. Er honum einkum ætlað að fjalla um nauðsynlega aðstöðu í höfnum og aðra innviði til að þessi grein ferðaþjónustunnar geti blómstrað.

Um það bil 80 erlend skemmtiferðaskip komu til landsins á síðasta ári. Skipin komu flest til Reykjavíkur og voru farþegar með þeim alls 55 þúsund talsins. Mörg skipanna koma einnig við á einni eða tveimur öðrum höfnum landsins. Auk Reykjavíkurhafnar tóku eftirtaldar hafnir á móti skemmtiferðaskipum á síðasta ári: Akureyri, Ísafjörður, Vestmannaeyjar, Grundarfjörður, Reykjanesbær, Seyðisfjörður, Húsavík og Hafnarfjörður. Gera má ráð fyrir að tekjur vegna hafna- og vitagjalda séu ekki undir 130-150 milljónum króna og ferðamenn sem í land koma eru taldir verja a.m.k. 500 milljónum króna í vörur og þjónustu.

Mikið markaðsstarf er unnið á vettvangi samtakanna Cruise Iceland, einstakra hafna og fyrirtækja til að efla þessa tegund ferðaþjónustu hér á landi. Er það samdóma álit sérfræðinga á þessu sviði að byggja þurfi upp hafnarmannvirki og aðstöðu í sumum höfnum, til að unnt sé að veita farþegum viðunandi þjónustu. Meðal þess sem talið er hvað brýnast að byggja er farþegamiðstöð við Reykjavíkurhöfn.

Í starfshópnum sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra skipaði síðastliðinn föstudag eru: Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, formaður, Gunnar Rafn Birgisson, forstjóri ferðaskrifstofunnar Atlantik, Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu, Hörður Blöndal, hafnarstjóri á Akureyri, og Sigríður Finsen, formaður hafnaráðs. Hópnum er falið að ljúka störfum í desember á þessu ári.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira