Hoppa yfir valmynd

Frétt

1. mars 2007 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Lagafrumvarp um íslenska alþjóðlega skipaskrá

Dreift hefur verið á Alþingi frumvarpi til laga um íslenska alþjóðlega skipaskrá sem samið var á vegum samgönguráðuneytis. Jafnframt er dreift frumvarpi fjármálaráðherra varðandi skattaleg atriði slíkrar skrár.

Með frumvarpi um skipaskrá er lagt til að komið verði á fót íslenskri alþjóðlegri skipaskrá sem heimilar skráningu kaupskipa að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Frumvarpið setur ramma um slíka skipaskrá og hefur jafnframt verið unnið frumvarp hjá fjármálaráðuneytinu um þau skattalegu og rekstrarlegu atriði sem nauðsynlegt er að taka á til að slík skrá verði virk.

Í dag eru engin íslensk kaupskip skráð hérlendis og því engin íslensk kaupskip í siglingum hvort sem er milli landa eða í strandsiglingum. Engar tekjur er því af slíkri skrá hér á landi hvort heldur er í formi skatta né á annan hátt en gera má ráð fyrir því að slíkri skrá fylgi ýmiss konar hliðarstarfsemi.

Meðal helstu atriða frumvarpsins um skipaskrá eru þessi:

? Markmiðið með frumvarpinu er að stuðla að skráningu kaupskipa á Íslandi, hvort sem er íslenskra eða erlendra.

? Skráning afmarkast við kaupskip sem eru 100 brúttótonn eða stærri og flytja farm og/eða farþega gegn endurgjaldi í siglingum milli landa og farmflutningum innanlands.

? Heimild einstaklinga til að skrá kaupskip er bundin við ákveðið ríkisfang, íslenskt eða ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu, en að öðru leyti er heimild afmörkuð við íslenskan lögaðila. Erlendum ríkisborgara er gert skylt að hafa íslenskan umboðsaðila hér á landi.

? Kaupskip verða skráð með frumskráningu eða flutningi af annarri skipaskrá auk þess sem þurrleiguskráning er heimil.

? Gert er ráð fyrir að Siglingastofnun Íslands visti skrána og sjái um skráningu og framkvæmd frumvarpsins að öðru leyti. Heimahöfn skipanna er Reykjavík og réttindaskrá haldin hjá sýslumanninum í Reykjavík. Almennar reglur um skráningu skulu vera í samræmi við gildandi reglur og þær alþjóðlegu kröfur sem Ísland er skuldbundið til að framfylgja.

? Réttaráhrif skráningar eru að kaupskipin eru íslensk, hafa heimild til að sigla undir íslenskum fána og eiga undir íslenska lögsögu. Í þessu felst m.a. að íslenskar reglur gilda um skoðun og eftirlit.

? Ekki eru gerðar sérstakar kröfur um þjóðerni áhafna skráðra kaupskipa nema að skipstjóri skal almennt vera íslenskur eða ríkisborgari ríkis innan EES en undanþága er þó heimil.

? Auk þess er meðal annars kveðið á um hvenær afskrá ber kaupskip af skránni og hvernig tilkynna ber eigendaskipti. Einnig er til áréttingar kveðið á um skjöl sem eru undanþegin stimpilgjaldi en um það er nú kveðið á um í lögum um stimpilgjald.

Sjá má frumvarpið um alþjóðlegu skipaskrána hér.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira