Hoppa yfir valmynd

Frétt

19. júní 2007 Félagsmálaráðuneytið

Jafnrétti í reynd

Í dag, árið 2007, höldum við hátíðlegan 19. júní í tilefni af því að fyrir rúmum 90 árum samþykkti Alþingi lög sem kváðu á um að íslenskar konur öðluðust kosningarrétt, í áföngum þó.

Árið 2007 helgar ný ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks jafnrétti kvenna og karla sérstakan kafla í stefnuyfirlýsingu sinni undir yfirskriftinni „Jafnrétti í reynd“. Þetta eru stór orð og þeim fylgir mikil ábyrgð. Sem ráðherra jafnréttismála tek ég þau mjög alvarlega og hef fulla ástæðu til.

Staða kvenna fyrr og nú

Fyrir einni öld voru kjör kvenna hér á landi bágborin og staða þeirra í samfélaginu að mörgu leyti veik og áhrif þeirra í opinberum stofnunum lítil. Verkakonur „á eyrinni“ höfðu meira en helmingi minna kaup en karlar fyrir sömu vinnu. Vinnukonur bjuggu við enn lakari kjör. Lengi vel var samið um tvo kauptaxta, annan fyrir karlmenn og hinn, með lægri launum, fyrir konur.

Hvað hefur breyst? Vissulega margt. Íslenskar konur eru nú í meirihluta í mörgum greinum framhaldsmenntunar. Þær hafa haslað sér völl víða í sérfræðigreinum og byggt upp sinn eigin starfsframa. Hlutfallslega fleiri konur vinna hér á landi en í nokkru öðru OECD-ríki og ekkert af nágrannalöndum okkar státar af jafnmiklum barneignum. Kannanir veita vísbendingar um að ungar íslenskar konur muni gera sömu kröfur og karlar þegar kemur að því að semja um kaup og kjör. Til okkar er horft vegna fæðingarorlofs feðra sem talið er stuðla að jafnrétti til frambúðar jafnt á vinnumarkaði sem inni á heimilum. Rannsóknir benda til þess að íslenskir feður axli meiri umönnunarábyrgð í fjölskyldulífi en feður annars staðar á Norðurlöndum. Þetta eru jákvæðar upplýsingar sem okkur ber að halda á lofti. En hvað þurfum við að bæta til að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar um jafnrétti í reynd?

Við þurfum að efla þátttöku kvenna í stjórnmálalífi og í stjórnunarstöðum hjá hinu opinbera og á almennum markaði en okkur ber einnig skylda til að horfa nú þegar til þeirra sem við lakastar aðstæður búa.

Endurmat á umönnunarstörfum

Það er full ástæða til að hafa alvarlegar áhyggjur af því að fjölmennar kvennastéttir, ekki síst í umönnunarstörfum, búa við svo lök kjör að víða blasir við atgervisflótti, en konur í þessum störfum starfa oft við ómanneskjulegt vinnuálag. Ekki er ólíklegt að þær flýi störf sem þær hafa menntað sig til fyrir betur launuð störf á öðrum vettvangi þegar vel árar á vinnumarkaðnum til að sjá sér og sínum farborða. Stærsti þátturinn í uppbyggingu velferðarsamfélagsins er að hægt sé halda uppi öflugri og markvissri þjónustu í þessum störfum.

Gömul klisja og ný heyrist um að störf sem þessi séu ekki arðbær. Það er rétt að umönnun barna og sjúkra skilar sér ekki í beinhörðum peningum. Hún skilar sér hins vegar með öðrum hætti inn í hagkerfið okkar. Störfin í skólum landsins, heilbrigðisstofnunum og dvalarheimilum eru einmitt grundvallarskilyrði fyrir velferð samfélagsins í heild, að foreldrar geti verið á vinnumarkaðnum, börnin okkar notið góðra uppvaxtarskilyrða og að þeir sem þarfnast umönnunar geti notið hennar. Þau eru því ekki síst til þess fallin að bæta hag og aðbúnað barnafjölskyldna sem og lífeyrisþega.

Vanmat á störfum umönnunarstéttanna viðheldur kynjamisrétti. Ríkisstjórnin hefur sett það fram sem forgangsmál til að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaðnum að endurmeta sérstaklega kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meirihluta.

Ríkisstjórn, sveitarfélög og aðilar vinnumarkaðarins verða að taka höndum saman og snúa þessari þróun við með endurmati á störfum kvennastéttanna sem halda uppi velferðarsamfélaginu. Án starfa þeirra væri hér ekki velferðarsamfélag.

Við viljum ekki sjá afturhvarf til upphafs síðustu aldar þegar konurnar á eyrinni og vinnukonurnar voru hálfdrættingar karla í launum og báru lítið úr býtum. Ég trúi því að við viljum að þeir sem sinni börnum, sjúklingum og öldruðum í umönnunarstörfum geti lifað með reisn og að við setjum okkur það markmið að kjör þeirra verði svo góð að besta fólkið okkar sæki í þessi störf.

Áskorun til vinnumarkaðarins

Ég skora á alla sem áhrif hafa á vinnumarkaði að setja mál þessara fjölmennu kvennastétta í forgang þannig að það endurspeglist raunverulega í kjarasamningum. Þar verður ríkisvaldið að sýna gott fordæmi því fjölmennu kvennastéttirnar í velferðarþjónustunni, sem skammarlega lítið bera úr býtum, eru í störfum á opinbera vinnumarkaðnum. Þetta verður eitt af þeim verkefnum á sviði jafnréttismála sem ég mun setja í forgang í starfi mínu sem félagsmálaráðherra.

Ég óska landsmönnum öllum til hamingju með þennan dag, kvenréttindadaginn 19. júní, enda er það ávinningur allra – karla sem kvenna, ungra og aldraðra – að við náum launajafnrétti í reynd.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira