Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. október 2007 Innviðaráðuneytið

Skýrsla kynnt um aðstæður fólks á húsnæðismarkaði

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Jóhanna SigurðardóttirFélagsmálaráðherra skipaði nefnd í ágúst sem hefur það hlutverk að koma með tillögur sem miða að því að efla félagslegan þátt húsnæðislánakerfisins, þar með talinn leigumarkaðinn og lánveitingar til fólks undir skilgreindum eigna- og tekjumörkum. Skýrslunni, sem var unnin á Rannsóknarstöð þjóðmála við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, er ætlað að auðvelda nefndinni að greina vanda þeirra sem standa höllustum fæti á húsnæðismarkaðnum og móta tillögur sem nýtast þeim.

Í skýrslunni kemur fram að langir biðlistar eru eftir félagslegu leiguhúsnæði hjá sveitarfélögum og Öryrkjabandalagi Íslands, eða um 1.650 manns. Um 70% þeirra eru með heildartekjur undir 150.000 krónum á mánuði og flestir eru einhleypir og barnlausir en einstæðir foreldrar eru um 30%. Yfir 700 börn eru á framfæri þeirra sem eru á biðlistunum. Útlendingar eru 5% þeirra sem bíða eftir félagslegu húsnæði. Þar að auki eru 1.100 námsmenn á biðlistum hjá húsnæðisfélögum námsmanna.

Í símakönnun um aðstæður fólks á aldrinum 18–80 ára á húsnæðismarkaði sem framkvæmd var í ágúst kemur fram að meirihluti Íslendinga býr við góðar húsnæðisaðstæður og viðunandi greiðslubyrði. Þá búa 78% fólks á aldrinum 18–80 ára í eigin húsnæði en 11,5% eru á leigumarkaði og 40% þeirra er á almennum leigumarkaði.

Í könnunni kemur fram að mikill húsnæðiskostnaður er nátengdur almennum greiðsluerfiðleikum fólks og sterkar vísbendingar eru um að erfitt sé fyrir ungar barnafjölskyldur að koma inn á fasteignamarkaðinn og fólk með tekjur undir meðaltekjum. Því lægri sem tekjurnar eru þeim mun erfiðara er það. Einstæðir foreldrar eru í sérstaklega erfiðri stöðu á húsnæðismarkaði.

Ef úrtakið er yfirfært á landsmenn alla hafa um 7.000 manns reynt að kaupa húsnæði á síðastliðnum árum en fallið frá því. Þetta er mun algengara á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Af þeim sem vilja kaupa en geta ekki er skortur á eigin fé stærsta hindrunin.

Um 30.000 landsmanna á aldrinum 18–80 ára sem ekki búa í eigin húsnæði telja að erfitt verði fyrir þá að greiða afborganir og vexti af húsnæðislánum miðað við núverandi tekjur sínar.

Skjal fyrir Acrobat ReaderHúsnæðiskönnun 2007 (pdf, 353kb)

Skjal fyrir Acrobat ReaderHúsnæðiskönnun 2007 - viðauki (pdf, 213kb)

Skjal fyrir Acrobat ReaderÞörf fyrir félagslegt húsnæði - 2007 (pdf, 116kb)Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira