Hoppa yfir valmynd

Frétt

13. mars 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra mælir fyrir frumvarpi um lyfjamál

Ráðherra sagði þegar hann mælti fyrir frumvarpinun að lagðar væru til nokkrar breytingar á gildandi lyfjalögum sem miðuðu að því að efla samkeppni og auka þjónustu við neytendur. Þetta væri gert með því m.a. að fella brott bann við póstverslun með lyf og heimila sölu nikótín- og flúorlyfja utan lyfjabúða sem væri m.a. liður í forvörnum.

- Til þess að lækka lyfjaverð og halda lyfjakostnaði stofnana í lágmarki er lagt til með frumvarpi þessu að verð á lyfseðilsskyldum lyfjum frá sama söluaðila verði það sama um allt land. Einnig er lagt til að lyfjanefndir sjúkrahúsa gefi út bindandi lista um notkun á lyfjum á viðkomandi sjúkrahúsi,” sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra. Hann gerði svo í ræðu sinni grein fyrir helstu þáttum frumvarpsins:

“Í fyrsta lagi er með a- og b-lið 3. gr. frumvarpsins lagt til að horfið verði frá banni núgildandi laga um póstverslun með lyf og að slík verslun verði heimil að uppfylltum nánari skilyrðum sem kveðið skal á um í reglugerð. Þessi breyting er gerð með það að markmiði að efla samkeppni, auka þjónustu við neytendur og opna markaðinn. Gert er ráð fyrir að póstverslun með lyf verði bundin lyfsöluleyfi og sé í tengslum við starfandi apótek til þess að þessi verslun falli að þeirri umgjörð sem lyfjaverslun í landinu og á Evrópska efnahagssvæðinu almennt er búin.

Í öðru lagi er með a-lið 2. gr. frumvarpsins lögð til sú breyting að sala nikótín- og flúorlyfja verði heimiluð í öðrum verslunum en lyfjabúðum. Ákvæðið tekur einungis til nikótínyfja sem ekki eru lyfseðilsskyld.  Verði frumvarpið að lögum má búast við að samkeppni aukist og að verð slíkra lyfja lækki. Nikótínlyf geta hjálpað reykingamönnum að hætta að reykja og því má færa rök fyrir því að slík lyf skuli vera jafnaðgengileg og tóbak.  Markmiðið með greininni er einnig að auðvelda aðgengi að flúorlyfjum sem ekki eru lyfseðilsskyld. Notkun flúorlyfja er ein áhrifamesta og hagkvæmasta vörn gegn tannskemmdum sem völ er á og ættu þau að vera jafnaðgengileg almenningi og gosdrykkir og sætindi.

Í þriðja lagi er með 12. gr. frumvarpsins lögð til breyting á ákvæði gildandi laga um lyfjanefndir sjúkrahúsa og hlutverk þeirra. Lagt er til að vægi þeirra verði aukið og lyfjanefndir gefi út bindandi lista með þeim lyfjum sem nota skal á viðkomandi stofnun. Eftir sem áður geta læknar stofnunarinnar ávísað öðrum lyfjum en eru á lyfjalista stofnunarinnar að fengnu samþykki lyfjanefndarinnar, t.d. ef um ofnæmi er að ræða fyrir því lyfi sem valið hefur verið á lyfjalistann.  Markmið þessa ákvæðis er að halda lyfjakostnaði heilbrigðisstofnana í lágmarki og til að því verði náð er mikilvægt að  ávallt sé í gildi lyfjalisti sem samþykktur hefur verið af lyfjanefnd fyrir val og meðferð lyfja á viðkomandi stofnun. Enn frekara starf er unnið með lyfjalista á vegum TR þar sem stuðlað er að hagkvæmari lyfjavali til að hámarka velferðarábatann sem hlýst af lyfjanotkun.

Í fjórða lagi er með 13. gr. frumvarpsins lagt til að lyfjaverð frá sama söluaðila verði það sama um land allt. Lyfjaheildsalar, lyfjaframleiðendur og umboðsmenn þeirra eða smásöluaðilar sem vilja selja lyf á lægra verði en á skráðu hámarksverði skulu tilkynna verð sitt til lyfjagreiðslunefndar, sem birtir það í næstu lyfjaverðskrá. Breytingin felur í sér að söluaðilar lyfja keppa um lægra verð í lyfjaverðskrá í stað þess að veita afslætti og stuðlar þannig að meira gegnsæi í lyfjaverðlagningu og heiðarlegri samkeppni.Raunverulegt lyfjaverð verður aðgengilegt neytendum í verðskrá sem stuðlar að raunhæfum verðsamanburði sem eflir samkeppni.

Í fimmta lagi er með 6. gr. frumvarpsins lagt til að varðveislutími gagna í lyfjagagnagrunni landlæknis verði lengdur úr þremur árum í 30 ár. Gögnin í lyfjagagnagrunninum hafa reynst vera afar nauðsynleg til gæðastýringar og rannsókna á sviði lyfja- og heilbrigðismála í landinu. Þriggja ára eyðingarákvæðið stendur því fyrir þrifum að hægt sé að bæta gæði lyfjanotkunar með gæða- og rannsóknaverkefnum, t.d. er ómögulegt að fylgjast með aukaverkunum, rannsaka áhrif lyfja á þjóðina og rekja hugsanlegan skaða sem sjúklingar geta hafa orðið fyrir vegna lyfja. Landlæknir, Lyfjastofnun, Rannsóknastofnun um lyfjamál við Háskóla Íslands og fleiri aðilar hafa eindregið hvatt til þess að geymslutíminn verði lengdur.

Í sjötta lagi er með 1. gr. frumvarpsins gerð sú breyting á gildandi lögum að umfjöllun um umsóknir og útgáfu lyfsöluleyfa, innflutnings- og heildsöluleyfa og framleiðsluleyfa er flutt frá heilbrigðisráðuneytinu til Lyfjastofnunar. Þessi breyting er í samræmi við einföldunaráætlun ráðuneytisins í tengslum við aðgerðaáætlun um Einfaldara Ísland sem samþykkt var í ríkisstjórn 17. október 2006. Helstu rökin fyrir því að flytja umfjöllun og útgáfu leyfa á þessum sviðum til Lyfjastofnunar eru þau að hér er um að ræða stjórnsýslu sem telja verður að eigi frekar heima á verksviði stofnunar en ráðuneytis. Með þessari breytingu er því um að ræða einföldun á málsmeðferð og styttingu málsmeðferðartíma. Þá verður að telja að þessi breyting sé ákjósanleg út frá sjónarmiðum um réttaröryggi því umsækjandi um framangreind leyfi getur borið ákvörðun Lyfjastofnunar undir ráðuneytið og þannig fengið fjallað um mál sitt á tveimur stjórnsýslustigum. Er nokkrum ákvæðum gildandi laga breytt til samræmis við framangreindan verkefnaflutning.”

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira