Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. maí 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Allt að 30 palestínskum flóttamönnum boðið til Íslands

Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu flóttamannanefndar um að bjóða allt að 30 manna hópi palestínskra flóttamanna hæli á Íslandi. Um er að ræða konur, einstæðar mæður og börn þeirra sem nú dvelja við afar bágar aðstæður í Al Waleed flóttamannabúðunum í Írak. Konurnar hafa flestar misst eiginmenn sína í stríðsátökum undanfarin ár og eru taldar líklegar til að geta nýtt sér tækifæri til nýs lífs í íslensku samfélagi.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur fjallað um aðstæður þeirra einstaklinga sem ætlunin er að bjóða hæli hér á landi og veitt þeim stöðu flóttamanna. Nú tekur við ferli hér heima sem felst í því að kanna nákvæmlega aðstæður þeirra einstaklinga sem um ræðir. Að lokum mun sendinefnd með fulltrúum flóttamannanefndar og fulltrúa Útlendingastofnunar fara til flóttamannabúðanna í Al Waleed og taka viðtöl við hælisleitendur. Akraneskaupstaður hefur nú til umfjöllunar erindi frá flóttamannanefnd um að taka á móti hópnum, líklega síðar í sumar.

Í upplýsingum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna koma fram lýsingar á skelfilegum aðstæðum í flóttamannabúðunum í Al Waleed. Hitastig á svæðinu getur sveiflast frá frosti upp í fimmtíu gráður á Celsíus. Fólkið býr í tjöldum við afar slæman aðbúnað, þjónusta á staðnum er afar bágborin. Til að fá læknisþjónustu þarf að ferðast um 400 kílómetra leið í leigubíl því enginn aðgangur er að sjúkrabílum. Flóttafólkinu stafar hætta af snákum og rottum, börnum af stöðugum ferðum flutningabíla og íbúum öllum stafar hætta af því að eldur brjótist út í tjaldbúðunum.

Í flóttamannanefnd sitja fulltrúar félags- og tryggingamálaráðherra, utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra og fulltrúi frá Rauða krossi Íslands. Þess má geta að frá árinu 1996 þegar flóttamannaráð (síðar flóttamannanefnd) var stofnað, hafa Íslendingar tekið á móti 277 flóttamönnum, flestum frá löndum Austur-Evrópu. Árin 19561991 var tekið á móti 204 flóttamönnum. Nýlega undirrituðu félags- og tryggingamálaráðherra og utanríkisráðherra samkomulag um móttöku flóttamanna til tveggja ára og grundvallast ákvörðun ríkisstjórnar Íslands um móttöku palestínsku flóttamannanna meðal annars á því samkomulagi.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum