Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. júní 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fulltrúar flóttamannanefndar á leið til Írak

Íslensk sendinefnd skipuð fulltrúum flóttamannanefndar og Útlendingastofnunar lagði í dag af stað til flóttamannabúðanna Al Waleed í Írak til að taka viðtöl við flóttafólk sem boðið verður hæli hér á landi nú í haust.

Flóttafólkið dvelst í Al Waleed flóttamannabúðunum sem liggja á einskismannslandi nærri landamærum Sýrlands og býr við skelfilegar aðstæður. Það er mat Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna að palestínskir flóttamenn í Írak séu í brýnni þörf fyrir öruggt skjól og fóru Sameinuðu þjóðirnar því þess á leit við íslensk stjórnvöld að veita hluta þeirra sem þar dvelja hæli.

Flóttafjölskyldurnar munu setjast að á Akranesi.

Hlutverk sendinefndarinnar er að ræða við fólkið, kynna því Ísland og meta hversu vel aðstæður hér á landi geta komið til móts við þarfir þess. Á milli 25 og 30 einstaklingum verður boðið að setjast að hér á landi. Ferð sendinefndarinnar tekur eina viku.

Flóttamannanefnd er skipuð af félags- og tryggingamálaráðherra. Í henni eiga sæti fulltrúar dóms- og kirkjumálaráðuneytis, utanríkisráðuneytis og Rauða kross Íslands en formaður er skipaður af félags- og tryggingamálaráðherra. Flóttamannanefnd hefur yfirumsjón með móttöku flóttamanna.

Ítarefni um flóttamannaverkefnið á Íslandi og um aðstæður palestínsku flóttamannanna í Írak er að finna á vef ráðuneytisins.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum