Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. júní 2008 Innviðaráðuneytið

Fjölgun leiguíbúða

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, um að veita 5 milljarða króna lánsfjárheimild til Íbúðalánasjóðs vegna leiguíbúða. Ákvörðunin er tekin á grundvelli yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um aðgerðir á fasteigna- og fjármálamarkaði frá 19. júní síðastliðnum. Heimildin nær til leiguíbúðalána á almennum markaði vegna söluíbúða sem ekki seljast. Leiguíbúðalán verða veitt aðilum í þeim sveitarfélögum þar sem eftirspurn eftir leiguhúsnæði er fyrir hendi.

Lánað verður til íbúða sem hafa náð að minnsta kosti fokheldisstigi 1. júlí 2008. Til að takmarka útlánaáhættu Íbúðalánasjóðs vegna lánanna verða ekki veitt lán til íbúða í sveitarfélögum þar sem leiguíbúðir fjármagnaðar af Íbúðalánasjóði standa auðar. Uppfylli íbúðirnar þessi skilyrði getur Íbúðalánasjóður veitt lánsvilyrði en lánin greiðast út þegar íbúðirnar eru fullbúnar og þinglýstur leigusamningur til eins árs liggur fyrir.

Félags- og tryggingamálaráðherra mun óska eftir því við stjórn Íbúðalánasjóðs að sjóðurinn hefji lánveitingar í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira