Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. ágúst 2008 Dómsmálaráðuneytið

Breytingar á útlendingalögum hafa öðlast gildi

Breytingar á útlendingalögum sem samþykktar voru á Alþingi í vor tóku gildi 1. ágúst síðastliðinn. Meðal helstu breytinga má nefna að dvalarleyfi til útlendinga frá EES- eða EFTA- ríki eru nú afnumin.

Breytingar á útlendingalögum sem samþykktar voru á Alþingi í vor tóku gildi 1. ágúst síðastliðinn. Meðal helstu breytinga má nefna að dvalarleyfi til útlendinga frá EES- eða EFTA- ríki eru nú afnumin. Þess í stað munu þeir skrá dvöl sína hér á landi hjá Þjóðskrá. Ríkisborgarar ríkja utan EES, sem eru aðstandendur EES ríkisborgara, þurfa að sækja um dvalarskírteini hjá Útlendingastofnun. Þessar breytingar voru gerðar til samræmis við Evróputilskipun um frjálsa för á EES-svæðinu.

Fleiri efnisreglur um dvöl útlendinga er að finna í lögunum en áður. Lögin hafa að geyma ákvæði um flokka dvalarleyfa og helstu skilyrði fyrir þeim. Ákvæði laganna er varða dvalarleyfi vegna atvinnuþátttöku voru samræmd þeim breytingum sem á sama tíma voru gerðar á ákvæðum laga um atvinnuréttindi útlendinga og lúta að flokkum atvinnuleyfa. 

Í lögunum er að finna reglur um afgreiðslu dvalarleyfa, þ. á m. forgangs- og hraðafgreiðslu. Þá er gerð grein fyrir þeim skilyrðum sem uppfylla þarf til að útlendingur fái vegabréfsáritun til Íslands en slík skilyrði hafa hingað til verið í reglugerð. Réttarstaða erlendra ungmenna sem koma hingað til lands á grundvelli fjölskyldusameiningar fyrir 18 ára aldur er bætt þannig að heimilt er að endurnýja dvalarleyfi þeirra á sama grundvelli við það aldursmark og þeim heimilað að sýna fram á framfærslu með aðstoð foreldris í stað sjálfstæðrar framfærslu.

Skilyrðum fyrir búsetuleyfi er breytt þannig að útlendingur sem óskar eftir slíku leyfi skal hafa dvalið samfellt hér á landi í að minnsta kosti fjögur ár á grundvelli dvalarleyfis sem getur verið grundvöllur búsetuleyfis auk þess sem útlendingur má ekki eiga ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi. Einnig hafa lögin að geyma heimild til að veita barni sem fæðist hér á landi búsetuleyfi hafi forsjárforeldri slíkt leyfi. 

Unnið er að nýrri reglugerð um útlendinga til samræmis við lögin.

Sjá breytingar á lögum um útlendinga hér.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira