Hoppa yfir valmynd

Frétt

13. janúar 2009 Dómsmálaráðuneytið

Ólafur Þór Hauksson verður sérstakur saksóknari

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra hefur í dag, að höfðu samráði við fulltrúa allra þingflokka í allsherjarnefnd Alþingis, falið Ólafi Þór Haukssyni, sýslumanni á Akranesi, að gegna embætti sérstaks saksóknara.

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra hefur í dag, að höfðu samráði við fulltrúa allra þingflokka í allsherjarnefnd Alþingis, falið Ólafi Þór Haukssyni, sýslumanni á Akranesi, að gegna embætti sérstaks saksóknara. Framlengdur umsóknarfrestur um embættið rann út í gær, 12. janúar 2009, og barst ein önnur umsókn. Sá umsækjandi fullnægði ekki þeim skilyrðum sem gerð voru til starfsins og fram komu í auglýsingu um það.

Ólafur mun veita forstöðu rannsóknar- og saksóknaraembætti skv. lögum nr. 135/2008 sem rannsaka á grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda, tengslum við og kjölfar bankahrunsins, hvort sem það tengist starfsemi fjármálafyrirtækja, annarra lögaðila eða einstaklinga, og eftir atvikum fylgja rannsókn eftir með saksókn.

Ólafur tekur við embættinu frá og með 1. febrúar 2009 og gildir sú skipan uns embættið verður lagt niður eða það sameinað annarri ríkisstofnun, sbr. ákvæði laga um embætti sérstaks saksóknara, en þá mun hann taka við embætti sýslumanns á Akranesi að nýju.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
13. janúar 2009Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira