Hoppa yfir valmynd

Frétt

26. febrúar 2009 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Stórvirkar vinnuvélar undirbúa Landeyjahöfn

Framkvæmdir við Landeyjahöfn hófust á liðnu hausti í framhaldi af undirritun samnings Siglingastofnunar Íslands og Vegagerðarinnar við Suðurverk sem bauð lægst fjögurra bjóðenda og var tilboðsupphæðin 1,9 milljarðar króna. Hafnargerðinni á að vera lokið um mitt næsta ár.

Framkvæmdir við Landeyjahöfn
Framkvæmdir við Landeyjahöfn hófust með grjótnámi á Seljalands-heiði á liðnu hausti.

Unnið er nú við fyrsta áfanga verksins sem er grjótnám á Seljalandsheiði. Efni úr námunni er fyrst flutt á millilager á eyrunum austan við Markarfljót og hafa rúmlega 200 þúsund rúmmetrar þegar verið losaðir. Þá er verið að leggja hinn nýja veg milli Hringvegarins og Landeyjahafnar sem verður 12 km langur. Grjótflutningar vegna gerðar varnargarða hafnarinnar eiga að hefjast í maí.

Stórvirkir námubílar sem vega 50 tonn og bera önnur 50 eru notaðir við grjótflutningana. Gert verður ræsi undir Hringveginn til að flutningarnir geti farið fram óhindraðir af umferð um veginn enda hefur verið reiknað út að aka þurfi um 50 þúsund ferðir vegna flutninganna.

Eins og fyrr segir er áætlað að Landeyjahöfn verði tilbúin um mitt næsta ár og er verkið á áætlun. Ákveðið verður á næstu vikum hvernig siglingum verður háttað, hvort Herjólfur verður nýttur fyrst eða hvort leigð verður önnur og hentugri ferja til siglinganna.

Tröllvaxnir flutningabílar taka 50 tonn af grjóti í hverri ferð    
Tröllvaxnir flutningabílar taka 50 tonn af grjóti í hverri ferð sem þeir aka frá námunni að millilager.      


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira