Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. september 2009 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Ný bók um íslenskar hafnir og hafnargerð

Kristján L. Möller samgönguráðherra tók fyrir helgina við fyrsta eintaki bókarinnar Íslenskar hafnir og hafnargerð eftir Kristján Sveinsson. Útgefandi er Siglingastofnun Íslands.
Íslenskar hafnir og hafnargerð er nýlega komin út hjá Siglingastofnun Íslands
Íslenskar hafnir og hafnargerð er nýlega komin út hjá Siglingastofnun Íslands.

,,Í þessari bók er sögð saga hafnarframkvæmda á Íslandi frá því að ríkissjóður hóf að styrkja hafnarbætur laust fyrir aldamótin 1900 til samtímans. Markmiðið með ritun hennar er í senn að gefa yfirlit yfir helstu þættina í þróun hafnargerðar í landinu, stjórnsýslu hafnamála, hafnarmannvirki og byggingu þeirra,” segir Kristján Sveinsson meðal annars í formála bókarinnar.

Upphaf umfjöllunarinnar miðast við þau tímamót þegar stjórnvöld landsins tóku að veita fé úr sameiginlegum sjóðum til hafnarframkvæmda og hafnargerð varð samfélagsverkefni.

Fylgt er framvindu hafnarmannvirkja á einstökum stöðum, greint frá þróun hafnartækni og stjórnsýslu hafnarmála. Bryggjur og brimvarnargarðar eru í öllum sjávarplássum landsins og setja mikinn svip á umhverfið. Hafnarframkvæmdum hafa jafnan fylgt vonir um bætta afkomu, nýja atvinnumöguleika og aukið öryggi sjómanna og skipa. Þær eru og hafa verið ákaflega velkomnar og oft hafa hafnarframkvæmdirnar verið afrakstur langrar biðar og baráttu við fjárskort og óblíð náttúruöfl.

Samgönguráðherra sagði er hann veiti bókinni viðtöku að hér væri á ferð dýrmætt stórvirki og þakkaði höfundi og útgefanda en Hermann Guðjónsson siglingamálastjóri var hvatamaður þess að ráðist var í ritun og útgáfu bókarinnar.

Bókin er í stóru broti, 492 blaðsíður og prýdd fjölda mynda. Hún er hliðstæð bókinni Vitar á Íslandi sem Siglingastofnun gaf út árið 2002 en höfundar hennar eru Guðmundur Bernódusson, Guðmundur L. Hafsteinsson og Kristján Sveinsson.


Samgönguráðherra tekur við fyrsta eintaki bókarinnar Íslenskar hafnir og hafnargerð
Samgönguráðherra tekur við fyrsta eintaki bókarinnar Íslenskar hafnir og hafnargerð. Frá vinstri: Kristján L. Möller, Kristján Sveinsson og Hermann Guðjónsson.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira