Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. september 2009 Innviðaráðuneytið

Greiðslubyrði lána mun lækka

Sýna þarf fólki fram á að það borgi sig að standa við skuldbindingar sínar eins og vilji flestra stendur til. Víðtækar aðgerðir verða kynntar á næstu dögum sem munu fela í sér verulega lækkun á greiðslubyrði verð- og gengistryggðra lána með tengingu atvinnustigs launa- og gengisþróunar. Þetta kom fram í ræðu Árna Páls Árnasonar, félags- og tryggingamálaráðherra, á flokksþingi Samfylkingarinnar um helgina:

„Í þessum tillögum felst því, að ef laun hækka ekki og ef atvinnustig verður áfram lágt – ef gengi krónunnar lagast ekkert, þá helst greiðslubyrði lána í samræmi við það. Ef hins vegar almennar launahækkarnir verða í landinu og hér eykst atvinna – sem við erum auðvitað fullviss um – ef greiðslugeta okkar allra eykst, þá eykst greiðslubyrði á ný í samræmi við batnandi hag.

Með þessu er komið í veg fyrir það hróplega óréttlæti sem felst í misgengi á milli launaþróunar og lánskjara, þ.e.a.s. að á meðan launin hækka ekki eða jafnvel lækka, þá hækkar greiðslubyrðin af lánunum

Við ætlum ekki að endurtaka misgengishörmungarnar frá því 1983 og 1984.

Almenn lækkun greiðslubyrði gefur fyrirheit um að fjölskyldur geti leyst sig úr fjötrum og fengið annað tækifæri til að skipuleggja fjármálin vel og óttalaust. Það er engum greiði gerður með því að lengja skuldahalann, að lengja í snörunni, heldur verðum við að sýna fólki fram á að það borgi sig að standa við skuldbindingar sínar – og það vill fólk líka gera. Með þessum víðtæku almennu aðgerðum viljum við tryggja að langflestar fjölskyldur í landinu geti haldið sínu striki og byggt áætlanir sínar á forsendum sem eru ekki alltof ólíkar því sem var áður en þessar hörmungar dundu yfir. En eins og ég hef oft sagt er það ekki í mannlegu valdi að gera okkur jafnsett eins og ef hrunið hefði aldrei orðið. Við sitjum uppi með afleiðingar þess og verðum að vinna úr þeim eins best við getum.“

Tenging frá vef ráðuneytisins Ræðan í heildEfnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira