Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. september 2009 Innviðaráðuneytið

Leiðrétt greiðslubyrði og aðlögun skulda

Dómsmálaráðherra, félags- og tryggingamálaráðherra og viðskiptaráðherra á fundi með fréttamönnumÁrni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, kynnti í dag viðamiklar aðgerðir sem fela í sér umtalsverða leiðréttingu á greiðslubyrði af lánum og nýjar leiðir til að laga skuldir fólks að eignastöðu og greiðslugetu.

Aðgerðirnar byggjast á almennum aðgerðum sem munu bæta verulega fjárhagsstöðu allra skuldara sem eru með húsnæðis- eða bílalán. Jafnframt er um að ræða sértækar aðgerðir sem fela í sér nýjar og endurbættar leiðir til að bæta stöðu þeirra sem þurfa á meiri aðstoð að halda en felst í almennu aðgerðunum.

A. Þak á greiðslujöfnun lána / almenn aðgerð

Þak á greiðslujöfnun lána er nýmæli sem felst í því að skuldarar geta treyst því að þótt greiðslujöfnun feli í sér lengingu lánsins verður greiðslutíminn að hámarki þremur árum lengri en upphaflegur lánstími.

Greiðslujöfnunin tekur jafnt til verðtryggðra húsnæðislána og gengistryggðra húsnæðislána og bílalána. Afborganir af lánum munu lækka með greiðslujöfnuninni samkvæmt svokallaðri greiðslujöfnunarvísitölu og verða sambærilegar afborgunum eins og þær voru fyrir hrun.

Hafi [húsnæðislán]* ekki verið að fullu greitt að þessum þremur árum liðnum falla eftirstöðvarnar niður.

[Hafi bílalán/bílasamningur ekki verið greiddur niður að fullu við lok þriggja ára framlengingar getur lántaki/samningshafi farið fram á samningsslit með því að greiða eftirstöðvar að fullu eða skilað bifreiðinni, samkvæmt ákvæðum samnings, til lánveitanda/leigusala án frekari kvaða].*

Afborganir lána eru tengdar við þróun launa, atvinnustigs og gengis þannig að ef atvinnustig verður áfram lágt og gengi krónunnar lagast ekki helst greiðslubyrðin í samræmi við það, en þegar greiðslugetan eykst með hækkandi launum, auknu vinnuframboði og styrkara gengi eykst greiðslubyrðin í samræmi við batnandi hag.

  • Greiðslur af verðtryggðum lánum miðast við 1. janúar 2008
  • Greiðslur af gengistryggðum lánum miðast við 2. maí 2008

[* Fyllri skýring innan hornklofa, 7. okt. 09]

B. Greiðslujöfnun + / sértækt úrræði

Þetta úrræði kemur til viðbótar greiðslujöfnun með þaki. Það er sérstaklega ætlað þeim sem orðið hafa fyrir umtalsverðu tímabundnu tekjufalli, til dæmis vegna atvinnumissis. Greiðslubyrði lánsins er sniðin að aðstæðum einstaklingsins en staðan er endurmetin síðar. Lánið lengist á sama hátt og áður er lýst þegar um greiðslujöfnun er að ræða. Þak á lengingu lánstímans er eftir sem áður þrjú ár.

Sértæk skuldaaðlögun fjármálastofnana / sértækt úrræði

Úrræðið er ætlað fólki í verulegum greiðsluvanda sem dugir ekki almenn leiðrétting. Lagt er mat á greiðslugetu fólks til lengri tíma og á grundvelli þess eru skuldir lagaðar að greiðslugetu viðkomandi með þeim úrræðum sem nauðsynleg eru. Skuldaaðlögunin getur falist í greiðslufrestun á hluta skuldanna, afskriftum og mögulega yfirtöku eða sölu á veðsettum eignum. Þegar upp er staðið er miðað við að skuldarinn haldi að hámarki eftir hóflegu húsnæði og einum bíl og geti staðið undir afborgunum vegna þessara eigna.

C. Endurbætt opinber greiðsluaðlögun

Unnið er að endurbótum opinberrar greiðsluaðlögunar sem fram fer innan dómskerfisins. Markmið endurbótanna er að stytta ferli greiðsluaðlögunar og gera það þjálla og skilvirkara. Í því skyni verður umsjón með framkvæmdinni færð á eina hendi og tekið í notkun samræmt greiðslumat á rafrænu formi. Þá er miðað við að skuldurum verði tryggð grið af hálfu kröfuhafa þegar beiðni um greiðsluaðlögun liggur fyrir og þar til greiðsluaðlögun hefur verið samþykkt eða eftir atvikum hafnað.

Á glærunum hér að neðan eru sýnd dæmi til að skýra nánar hvað felst í aðgerðunum, meðal annars dæmi sem sýna áhrif greiðslujöfnunar til lækkunar á greiðslubyrði.

Skjal fyrir Microsoft PowerPointGlærur – dæmi

Skjal fyrir Microsoft PowerPointGlærur – almenn kynningEfnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira