Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. október 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Ársfundur Sjúkrahússins og heilsugæslunnar á Akranesi (SHA)

Ávarp Álfheiðar Ingadóttur, heilbrigðisráðherra,

á ársfundi SHA 7. október 2009

 

 

 

Ágætu ársfundargestir.

Það er virkilega ánægjulegt fyrir mig að þreyta prófraun mína í embætti heilbrigðisráðherra og fá að ávarpa gesti hér á ársfundi SHA.

Mér hefur alltaf fundist Skaginn eiga svolítið í mér og ég í honum. Ég fékk sem krakki að vera hér um sumar hjá frændfólki og vinafólki föður míns og það var góð vist. Var reyndar líka í Ölveri og strauk þaðan einu sinni. En ekki til Reykjavíkur. Nei, við stefndum auðvitað beint niður á Skaga.

Í minningunni var alltaf gott veður á Akranesi, Langisandur heitur og skeljasandsfjöllin himinhá þegar verið var að dæla. Ég er ekki viss um að það hafi allt verið leyfilegt sem við tókum okkur fyrir hendur en spennandi var það og skemmtilegt.

Þetta var upp úr miðri síðustu öld og nú er svo komið að menn miða tímatalið ekki við aldamót eða áramót heldur við hrunið og segja fyrir og eftir 6. október 2008.

Nú þegar liðið er slétt ár frá hruni vitum við hver staðan er.

Óvissunni er að ljúka, þokunni að létta. Tekjutap ríkissjóðs varð gríðarlegt í hruninu, útgjöldin jukust líka stórlega ekki síst vegna skulda sem sexfölduðust frá árinu 2007 og nema nú meira en heilli landsframleiðslu eða 1750 milljörðum króna.

Hallinn á ríkissjóði í ár er um 180 milljarðar króna.  Ríkisstjórnin hefur einsett sér að taka hann niður á 5 árum. Það er býsna bratt og þyngsta árið er árið 2010 þegar aðlögunarkrafan – þ.e. samdráttur í rekstri og framkvæmdum ríkisins að meðtöldum skattahækkunum  – er 56 miljarðar króna.

Eðlilega finnst mörgum of hratt farið í þessa vegferð og það er auðvelt að taka undir það. En þegar horft er til þess að vaxtagreiðslur af skuldum ríkissjóðs nema á yfirstandandi ári 100 milljörðum króna, þá  hljótum við að vera sammála um að því fyrr sem okkur tekst að rétta þennan halla af, því betra.

100 milljarðar króna í vaxtagreiðslur. Þetta eru í mínum huga blóðpeningar því þetta er nokkurn veginn sama fjárhæð og ætluð er í alla heilbrigðisþjónustu landsmanna á næsta ári, en það eru 93.3 milljarðar króna. Og þessar vaxtagreiðslur munu ekki lækka nema við greiðum niður skuldir með hagræðingu, sparnað og útsjónarsemi að leiðarljósi.

EN það er ekki sama hvernig það er gert. Aðhald, sparnaður og niðurskurður mega ekki veikja grunnstoðir velferðarkerfisins þ.m.t.  heilbrigðisþjónustu til frambúðar.

Þetta er leiðarljós ríkisstjórnarflokkanna við fjárlagagerð ársins 2010 og því er aðlögunarkröfunni dreift þannig að 5% krafa er sett á grunnþjónustuna,þ.e. félagsmálin og heilbrigðisþjónustuna, 7% á menntakerfið en 10% á allan annan ríkisrekstur, þ.m.t. stjórnsýsluna alla, líka í heilbrigðisþjónustu og skólakerfi.

Markmið ríkisstjórnarinnar er að verja grunnþjónustuna og verja störfin og hvað varðar hlut heilbrigðiþjónustunnar í samdrættinum, þá eru grunnáherslur heilbrigðisráðherra óbreyttar:

Að ná fram lækkun í launaútgjöldum með kjarajöfnun, draga úr yfirvinnugreiðslum og öðrum aukagreiðslum. Stýra notkun lyfja markvisst með sparnað í huga og leita samstarfs um innkaup á lyfjum, rekstrarvörum og þjónustu til hagræðingar.

Þið sem hér sitjið þekkið þessar áherslur og eruð að vinna eftir þeim alla daga, hörðum höndum.

En á tímum sem þessum hvet ég stjórnendur heilbrigðisstofnana einnig til að hugsa út fyrir rammann, út fyrir bókhald eigin stofnunar. Horfa til þjóðhagslegra og samfélagslegra áhrifa þeirra aðgerða sem þeir leggja til. Spyrja sig hvaða áhrif tilteknar aðgerðir hafa á viðkvæma hópa, t.d. konur og börn, fatlaða, á aldraða, atvinnulausa? Er kannski aðeins verið að flytja kostnaðinn til? Yfir á herðar sveitarfélaganna, Atvinnuleysistryggingasjóðs, á notendur þjónustunnar eða yfir í einkarekstur sem í reynd yrði ríkissjóði dýrari þegar upp væri staðið?

Þessum spurningum þurfum við að vera viðbúin að svara og muna jafnframt að engar ákvarðanir eru endanlegar. Við þurfum á stöðugu endurmati að halda í heilbrigðisþjónustunni, ekki síst á tímum samdráttar og sparnaðar.

Góðir fundarmenn.

Þið sem stjórnið og rekið SHA standið ofan á þessar ytri aðstæður frammi fyrir verkefnum, sem þrátt fyrir allt eru og hljóta að vera afar spennandi, þ.e. að sameina frá og með áramótum átta heilbrigðisstofnanir í eina undir merkjum Heilbrigðisstofnunar Vesturlands.

Í því felast sóknarfæri – í því felast möguleikarnir til að snúa vörn í sókn.

Samkvæmt fjárlögum næsta árs er gert ráð fyrir að heilsugæslusvið stofnunarinnar hagræði í rekstrinum sem svarar til 49 milljóna króna, hagræðingin á sjúkrasviði á að verða 86 milljónir rúmar og lagt er til hagræðing vegna reksturs hjúkrunarrýma um rúmar 41 milljónir króna. Samtals erum við hér að tala um 176 milljóna króna hagræðingarkröfu eða 6,3% frá fjárlögum þessa árs.

Þetta eru tillögurnar sem ég fékk í hendur fyrir helgi á sama tíma og fjárlagafrumvarp var kynnt og við munum á næstu vikum fá nánari upplýsingar um það hjá stjórnendum SHA hvernig þeir hyggjast koma til móts við þær.

Það er mín skoðun að sameiningin sem hér hefur verið ákveðin og aðlögunarkrafan sem bregðast þarf við í umdæmi Heilbrigðisstofnunar Vesturlands sé svo mikilvæg að ekki sé á sama tíma ástæða til að gera kröfur til frekari samhæfingar hennar við aðrar stofnanir eða þátttöku í uppstokkun verkefna innan heilbrigðisþjónustunnar. Ég segi að ekki verði gerðar kröfur um slíkt á sama tíma en með því er auðvitað ekki verið að loka á frumkvæði HV til samvinnu eða samþættingar ef óskir standa til þess.

Mikið hefur rætt um og margt fullyrt um endurskipulagningu Landspítalans og svokallaðra Kragasjúkrahúsa og hefur SHA á stundum verið talið til þerra. Einn er sá þáttur sem mikið hefur verið ræddur en það eru fæðingarþjónustan og gerð hefur verið tillaga um að allar áhættufæðingar færu frá Akranesi til Landspítalans enda þótt áfram yrði gert ráð fyrir sólarhringsvakt á skurðstofu hér.

Hér á Akranesi veit ég að rekin er fæðingarþjónusta og kvensjúkdómaþjónusta sem þykir ákaflega góð. Ég veit líka eftir þessa örfáu daga í ráðuneyti heilbrigðismála að það er fullur vilji hjá starfsfólki og stjórnendum að reyna að viðhalda óbreyttri þjónustu, og því góða orði sem fer af henni.

Ef raunverulegur sparnaður af því að senda héðan svokallaðar áhættufæðingar er aðeins 15 eða 20 milljónir króna á ári og ef stjórnendur telja sig geta hagrætt annars staðar til að mæta þessu, án þess að það hafi áþreifanlegar afleiðingar, og standast þá almennu hagræðingarkröfu sem stofnunin verður að uppfylla, og kýs frekar að halda óbreyttu ástandi í þessum efnum, þá tel ég að það sé þeirra val og þeirra ákvörðun. Sú ákvörðun verður ekki tekin í ráðuneyti heilbrigðismála.

Góðir fundarmenn.

Við Íslendingar þurfum nú að sníða okkur stakk eftir vexti og horfa jafnframt til framtíðar. Valið er þröngt og það er ljóst að aðlögunarkrafan getur bitnað á þeim sem síst skyldi, jafnvel þótt við einsetjum okkur að verja grunnþjónustuna og störfin, eins og ég hef hér lýst.

Við höfum lítið val annað en að gera eins vel og við getum.

SHA er vel rekin stofnun, hefur haldið sér nokkurn veginn innan fjárlagaramma undanfarin ár og hefur veitt öfluga og góða þjónustu.

Ég treysti því að við getum eftir nokkur ár sagt hið sama um Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Og ég treysti því að sú sameining sem ákveðin hefur verið muni takast vel og heiti stuðningi heilbrigðisráðuneytisins og starfsmanna þess til að það megi takast.

Gangi okkur öllum vel!

 

(Talað orð gildir)

 

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira