Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. janúar 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Upplýsingar um skógarmítil

Heilbrigðisráðherra fól fyrir skömmu landlæknisembættinu að uppfræða almenning um skógarmítil og hvernig forðast má skaða vegna hans. Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, lýsti þessu yfir á Alþingi þegar hún svaraði spurningu um málið frá Siv Friðleifsdóttur, Framsóknarflokki.

Í svari ráðherra kom fram að skógarmítill hefði fundist á Íslandi af og til og að hann væri að öllum líkindum orðinn landlægur hér og að útbreiðslusvæði hans hafi færst norður á bóginn með hlýnandi loftslagi. Í svari ráðherra kemur fram að Borrelíósan eða Lyme-sjúkdómur sem skógarmítill getur borið með sér sé skráningarskyldur sjúkdómur á Íslandi og hefur verið undanfarin ár. Síðan sagði ráðherra: „Tekið skal fram að fylgst hefur verið með þessum sjúkdómi undanfarin tuttugu ár hér á landi, enda margir læknar menntaðir á þeim stöðum í heiminum þar sem sjúkdómurinn er algengur.

Samkvæmt upplýsingum frá sýklafræðideild Landspítalans hafa á undanförnum tæpum fjórum árum verið send 255 blóðsýni og 38 sýni frá mænuvökva til rannsókna. Tvö sýnanna frá blóði bentu ákveðið til Lyme-sjúkdóms, en fjögur þeirra bentu til gamallar sýkingar. Eitt sýni frá mænuvökva var jákvætt fyrir Lyme-sjúkdómi. Ekkert þessara tilfella hefur verið skráð með uppruna hér á landi. Því má segja að grannt sé fylgst með sjúkdómum sem skógarmítlar gætu borið hér á landi.

Þar sem skógarmítill er landlægur er fólk vant því að leita að honum á líkama sínum eftir dvöl í skógi eða graslendi. Ef hann er tekinn af húðinni innan við sólarhring eftir að hann nær að festa sig er hann talinn hættulaus þar sem bakterían sem veldur Lyme-sjúkdómi í mönnum kemst ekki í blóðrás hýsilsins nema mítillinn sjúgi blóð mjög lengi. Hér á landi er fólk ekki vant þessari pöddu sem nú virðist orðin landlæg hér og því full ástæða til að fræða almenning um lífsferil skógarmítils og hvernig forðast má skaða af hans völdum. Ráðherra mun fela sóttvarnalækni það verkefni.“

Nú hefur landlæknisembættið birt á vefsíðu sinni ítarlegar upplýsingar um málið og eru menn hvattir til að kynna sér upplýsingarnar sem þar koma fram.

Sjá nánar á vef Landlæknisembættisins

Svör heilbrigðisráðherra á Alþingi

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira