Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. janúar 2010 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Nýr samningur um rekstur Vaktstöðvar siglinga

Undirritaður hefur verið nýr þjónustusamningur milli Siglingastofnunar Íslands og Neyðarlínunnar um rekstur Vaktstöðvar siglinga en eldri samningur hefur verið í gildi frá árinu 2004.

 

Hlutverk aðila skiptast þannig að Siglingastofnun hefur með höndum fjárhagslegt og faglegt eftirlit með rekstrinum, sinnir samskiptum við stjórnvöld og samstarfi við alþjóðastofnanir um siglingamál. Neyðarlínan sér um fjármál og rekstur vaktstöðvarinnar og gerir nauðsynlega samninga við verktaka.

Nýlega var allur fjarskiptabúnaður vaktstöðvarinnar endurnýjaður og óðum er nýtt og betra vöktunarkerfi að leysa hið eldra af hólmi. Með nýjum samningi næst meðal annars endurskipulagning og hagkvæmari rekstur á starfsemi og búnaði stöðvarinnar. Þar með er einnig nauðsynlegum niðurskurði á framlögum ríkisins mætt og sparnaðarmarkmiðum náð. Siglingastofnun Íslands mun samkvæmt samningnum greiða Neyðarlínunni 242 milljónir króna á ári fyrir að annast rekstur vaktstöðvarinnar.

Meðfylgjandi mynd var tekin við undirritun samningsins hjá Vaktstöð siglinga í dag. Frá vinstri: Þórhallur Arason, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu, Hermann Guðjónsson siglingamálastjóri, Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, og Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis.

 

Skrifað undir samning um Vaktstöð Siglinga

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira