Hoppa yfir valmynd

Frétt

4. maí 2010 Félagsmálaráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 4. maí 2010

Mætt: Lára Björnsdóttir formaður, Garðar Hilmarsson, tiln. af BSRB, Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Guðrún Ögmundsdóttir frá menntamálaráðuneyti f.h. Stefáns Stefánssonar, Héðinn Unnsteinsson, tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Sigurrós Kristinsdóttir, tiln. af ASÍ, Stella K. Víðisdóttir, tiln. af Reykjavíkurborg, Valgerður Halldórsdóttir, tiln. af BHM, Þórhildur Þorleifsdóttir án tilnefningar, Margrét Erlendsdóttir, Þorbjörn Guðmundsson og Ingibjörg Broddadóttir.

Fundinn sat einnig Hanna Björnsdóttir, nemi í félagsráðgjöf, hjá Hjálparstarfi kirkjunnar.

Þemaumræða um börn í ljósi kreppunnar og hvernig koma megi í veg fyrir barnafátækt.
Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, og Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, sátu fundinn auk Braga Guðbrandssonar, forstjóra Barnaverndarstofu.

Umræðan hófst með stuttum erindum:

 • Guðný Björk Eydal, prófessor við Háskóla Íslands
 • Andrea Hjálmsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri
 • Ragnar Þorsteinsson, sviðsstjóri fræðslumála hjá Reykjavíkurborg og formaður Barnanna í borginni
 • Ragnheiður Thorlacius, framkvæmdastjóri Fjölskyldumiðstöðvar Árborgar
 • Karl Sigurðsson, sviðsstjóri hjá Vinnumálastofnun
 • Valgerður Halldórsdóttir, formaður barnahóps velferðarvaktarinnar

Glærur fyrirlesaranna eru á vefslóð vaktarinnar

Guðný Björk Eydal greindi frá því að engar opinberar samræmdar mælingar hafi verið fyrir hendi um fátækt barna fyrr en 2004 þegar Hagstofa Íslands hóf þátttöku í EU-SILC, sem skapi nýja möguleika á markvissum samanburði milli landa. Samkvæmt tölum hjá Hagstofu Íslands voru 31.700 einstaklingar undir lágtekjumörkum, þar af voru 7.800 börn. Frá 2004 hafa 10–11% barna á Íslandi verið undir lágtekjumörkum. Heimili einstæðra foreldra eru í mestri áhættu en 22,8% þeirra eru undir lágtekjuhlutfalli á móti 4,2% þar sem tveir fullorðnir eru með börn.

Ragnar Þorsteinsson Greindi frá teyminu Börnin í borginni sem fylgist með líðan barna og starfsfólks í leik- og grunnskólum og frístundastarfi á vegum borgarinnar. Teymið leitar leiða til að minnka vanlíðan vegna álags og streitu og fylgist með tölulegum upplýsingum sem gefa vísbendingar um breytta fjárhagsstöðu heimilanna. Tryggt er að öll börn fá að borða í skólunum í Reykjavík og leggur teymið áherslu á að gjaldtöku fyrir skemmtanir og tómstundatilboð á vegum borgarinnar sé stillt í hóf.

Innheimta mataráskrifta var eftirfarandi hjá Reykjavíkurborg:

 • Á vorönn 2009 voru 83,3% nemenda í mataráskrift.
 • Á vorönn 2010 voru 85,7% nemenda í mataráskrift.

Málum í milliinnheimtu fjölgar – voru 607 í janúar, 642 í febrúar, 671 í mars og 733 í apríl 2010. Fjöldi greiðenda sem ætti að fá uppsögn stendur í stað (422 í september 2009 og 424 í maí 2010).

Dæmigerður innheimtuferill hefur ekki breyst síðustu tólf mánuði:

 • Eftir 60 daga eru vanskil 5%.
 • Eftir 120 daga eru vanskil 3%.
 • Eftir 180 daga eru vanskil 2%.

Ragnheiður Thorlacius greindi frá velferðarpúlsinum í Árborg, en atvinnuleysi þar var tæp 12% í mars síðastliðnum og eiga 47% atvinnulausra börn. Tæplega 80% atvinnulausra hafa grunnskólanám að baki. Fjárhagsaðstoð hefur aukist umtalsvert og hafa sveitarfélögin meðal annars gripið til eftirfarandi aðgerða til að styðja við börn og barnafjölskyldur:

 • Vakta aðstæður barna þvert á málaflokka – samstarf
 • Grípa inn í um leið og viðvörunarmerki birtast
 • Efla félagslega ráðgjöf – uppeldisráðgjöf
 • Efla barnavernd
 • Forgangsraða í þágu tekjulágra barnafjölskyldna – hugsanleg tekjutenging?
 • Efla forvarnastarf
 • Forgangsraða, ekki beita flötum niðurskurði
 • Virkja nærsamfélagið

Hjá Karli Sigurðssyni kom meðal annars fram að:

 • börn sem eiga foreldra á atvinnuleysisskrá eru um 11.300 (með foreldrum er átt við forráðamenn sem búa á heimilinu),
 • heildarfjöldi barna 0–17 ára í landinu er um 80.000 og eiga um 14% barna atvinnulaust foreldri,
 • þar af eru um 450 börn sem eiga báða foreldra atvinnulausa, eða um 0,6% barna,
 • þessi 450 börn eru á um 350 heimilum, þannig að í nálega fimmtungi tilvika er um systkini að ræða.

Alls eiga 14% barna atvinnulaust foreldri, en á Suðurnesjum eiga tæp 22% barna atvinnulaust foreldri en þar er atvinnuleysi hæst.

Andrea Hjálmsdóttir greindi frá íslenskum niðurstöðum könnunar (HBSC) um lífskjör og heilsu grunnskólanema í 6., 8. og 10. bekk. Samkvæmt niðurstöðum hefur lífsánægja nemendanna aukist lítillega milli 2005/2006 og 2009/2010. Marktækur munur var milli nemenda sem áttu foreldra sem höfðu atvinnu og þeirra sem áttu foreldra án atvinnu og lægstur var ánægjustuðullinn hjá þeim börnum þar sem báðir foreldrar voru án atvinnu.

Valgerður Halldórsdóttir sagði að þrátt fyrir að kreppa sé oftast tímabundið ástand, hvort sem hún snertir heilt þjóðfélag, einstaka fjölskyldur eða einstaklinga, geti afleiðingar hennar verið langvarandi á börn og komandi kynslóðir sé ekki brugðist við á uppbyggilegan hátt. Sumir hópar séu viðkvæmari en aðrir og þá verði að styrkja almenna grunnþjónustu, tryggja velferð í skólakerfinu og í nærumhverfi barna.Þörf sé á samstilltu átaki ráðuneyta, sveitarfélaga og félagasamtaka.Barnahópur velferðarvaktarinnar telur að standa verði sérstaklega vörð um börn einstæðra foreldra, atvinnulausra og heimili þar sem foreldrar hafa ekki sama lögheimili og börn þeirra og mikilvægt ð þétta „almannavarnakerfið" í kringum börnin. Kanna mætti að nýta megi þekkinguna um um almannavarnir þegar vá ber að höndum til að nýta fjármagn og samhæfa úrræði ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka. Valgerður lagði til að opnuð yrði sérstök samhæfingarmiðstöð barnamála sem ætlað væri að starfa á krepputímum. Þá lagði hún til að hugað yrði að því að fara af stað með hvatningu til foreldra um að standa saman og þétta tengslanet barna. Gæta þurfi sérstaklega að börnum innflytjenda kanna með hvaða hætti megi koma betur til móts við þau. Tryggja verði aðgang barna og barnafjölskyldna að fagfólki og sérfræðingum, án langs biðtíma, með sem minnstum tilkostnaði. Þau börn sem hafa sterka einstaklinga í kringum sig fái margs konar þjónustu – önnur verði af henni. Efla þurfi aðgengi að persónulegri ráðgjöf, fjölskylduráðgjöf og annars konar ráðgjöf tengda leik-, grunn- og framhaldsskólum og heilsugæslu, en stoðin í lífi barna sé að miklu leyti skólinn. Líta megi á skólann sem úrræði fyrir börn og barnafjölskyldur.

Umræður urðu í kjölfar inngangserindanna þar sem meðal annars kom fram að kreppan skerpi skilin milli þeirra sem þurfa á hjálp að halda og hinna sem spjara sig. Horfa verði á veikustu hópana. Mikilvægt sé að horfa á verndandi þætti í umhverfi barna og nú reyni verulega á velferðarkerfið. Börn sem eiga foreldra sem hafa verið án atvinnu í lengri tíma eru í mikilli áhættu. Rætt var um að nýta mætti efni úr áfallastjórnun, en bent var á að skipulag almannavarnakerfisins byggi á „einræði og fyrirskipunum" og þá aðferðafræði sé vart hægt að taka beint upp í velferðarþjónustu á krepputímum.

Félags- og tryggingamálaráðherra taldi fundinn hafa tekist vonum framar. Hann lagði áherslu á að notendur þjónustunnar yrðu að vera með í að skipuleggja hana, það ætti að heyra liðinni tíð að notendur séu ekki hafðir með í ráðum. Ráðherra kvað flest börn hafa öruggt stuðningsnet, en þau sem ekki hafi það verði að fá hjálp. Verið sé að gera margt sem dragi úr afleiðingum kreppunnar, svo sem ýmsar aðgerðir sveitarfélaganna og foreldrafærninámskeið sem foreldrum fatlaðra barna stendur til boða og laga má að þörfum foreldra af erlendum uppruna. Íslenskukennsla til atvinnulausra útlendinga sé nú viðurkennt vinnumarkaðsúrræði. Þá hafi átakið Ungt fólk til athafna farið vel af stað. Nú hafi 250 m.kr. verið varið til sumarvinnu 2010 og boðið verið upp á 900 störf hjá sveitarfélögum og ríkisstofnunum fyrir ungt námsfólk. Nauðsynlegt sé að einfalda stjórnsýsluna og efla miðstýringu á vissum sviðum og ná þannig betri samvinnu milli kerfa. Samhliða verði að efla neyðarhjálp til þeirra sem allra veikast standa og styðja fólk til sjálfshjálpar. „Við erum ekki komin að endurreisninni." Mjög margt er eftir en aðgerðir stjórnvalda miða í þá átt að efla ráðstöfunartekjur heimilanna sem meðal annars ætti að bæta stöðu barna.

Lára Björnsdóttir þakkaði fyrirlesurum og ráðherra góð innlegg.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira