Hoppa yfir valmynd

Frétt

4. maí 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Vísindi á vordögum

Álfheiður Ingadóttir
heilbrigðisráðherra

 

Vísindi á vordögum -
kynning á klínísku rannsóknasetri
Landspítala og Háskóla Íslands -

í K-byggingu þann 4. maí 2010 kl. 11:30

 

Menntamálaráðherra! Góðir áheyrendur!

Yfirleitt höldum við uppskeruhátíðir á haustin en hér komum við saman til að fagna góðum árangri að vori til. Og tilefnið er bæði mikið og gott. Að þessu sinni tengist það tveimur af ótrúlega mörgum hlutverkum Landspítala háskólasjúkrahúss; annars vegar að afla samfélaginu nýrrar þekkingar með því að stunda rannsóknir og hins vegar að miðla nýrri þekkingu áfram, beita henni til hagsbóta fyrir fræðin og samfélagið í heild

Við megum og eigum að vera hreykin af íslenskum rannsóknum á sviði heilbrigðisvísinda og þar munar sannarlega um framlag Landspítalans, en spítalinn er eitt virkasta rannsóknasetur Íslands.

Einn viðurkenndur mælikvarði á árangur í rannsóknum er fjöldi ritrýndra greina en þar höfum við Íslendingar skipað okkur á bekk meðal fremstu þjóða og erum í öðru til þriðja sæti í fjölda birtra vísindagreina miðað við höfðatölu.

Á síðasta ári áttu starfsmenn Landspítalans á þriðja hundrað greina sem birtar voru í ritrýndum vísindatímaritum og átti spítalinn einn nærri þriðjunginn af landsframleiðslunni á þessu sviði.

Þetta viðamikla hlutverk Landspítalans fellur oft í skuggann af öðrum hlutverkum hans þ.e. að þjóna sjúkum og að mennta heilbrigðisstéttir, en ég legg áherslu á hversu mikilvægt það er.

Grunnurinn að góðum árangri á þessu sviði er mikið og gott samstarf spítalans og Háskóla Íslands, en nálægðin við Háskólann var einmitt meginforsenda fyrir staðarvali nýs Landspítala. Hér á þessari torfu verður samstarf þessara tveggja stoða í mennta- og vísindalífi landsmanna formgert og til frambúðar.  Þannig getum við best nýtt mannauð og þekkingu og eflt enn frekar styrk beggja, þ.e. LSH og HÍ á sviði heilbrigðisrannsókna og kennslu.

Klínískar rannsóknir hljóta eðli málsins samkvæmt að skipa veglegan sess í vísindalegu framlagi háskólasjúkrahúss. Klínískt rannsóknasetur Landspítala og Háskóla Íslands var opnað í janúar síðastliðnum og í tengslum við það starfa rannsóknastofur í hinum ýmsu fræðigreinum heilbrigðisvísinda. Ein slík verður formlega sett á laggirnar hér á eftir en það er rannsóknastofa í bráðafræðum.

Eitt er að afla nýrrar þekkingar með rannsóknum en  niðurstöður þeirra þarf líka að hagnýta í þágu samfélagsins, þær þurfa að skila sér út í atvinnulífið, með nýsköpun og starfsemi sprotafyrirtækja. Þar bíða enn mörg tækifæri.

En fyrsta skrefið er að miðla upplýsingum um rannsóknarviðfangið og kynna niðurstöðurnar.  Það gera starfsmenn Landspítalans sem fyrr segir í vísindaritum með góðum árangri en einnig eins og hér á vordögum með margháttaðri kynningu fyrir lærða og leika, með veggspjöldum og fyrirlestrum.

Auk þess að birta niðurstöður rannsókna á markvissan hátt og gera þær aðgengilegar þarf að skila nýrri þekkingu í hendur þess fólks sem þarf að nota hana á hverjum degi. Menntun í öllum skilningi er lykilþáttur í að svo megi verða.

Og þar er komið að enn einu hlutverki Landspítala, sem er menntun heilbrigðisstarfsfólks. Spítalinn er höfuðból í grunnmenntun heilbrigðisstarfsmanna þar sem um 1100 nemendur stunda nám á hverju ári.

Nemendur spítalans hafa löngum stundað framhaldsnám og störf við fremstu háskólasetur í heilbrigðisvísindum bæði austan hafs og vestan og borið hróður hans víða.

Þessu til viðbótar hefur Landspítalinn eflt mjög framhaldsmenntun heilbrigðisstétta og hefur átt samstarf við heimsþekktar stofnanir á því sviði í sérfræðimenntun lækna og hjúkrunarfræðinga. Heilbrigðisyfirvöld bæði hér á landi og á Norðurlöndunum hafa viðurkennt í verki framlag spítalans í þessum efnum þar sem námstími við stofnunina hefur verið tekinn gildur sem hluti af sérfræðimenntun í ýmsum greinum. Segja má með sanni að spítalinn sé forystuafl í framhaldsmenntun heilbrigðisstétta á Íslandi en hún er lykilatriði í því að halda uppi gæðum í heilbrigðisþjónustu hér á landi. 

Árangur Landspítalans á sviði rannsókna og mennta er glæsilegur eins og sjá má á því sem fram er fært undir fyrirsögn Vísinda á vordögum.

Það er ánægjulegt að fá að kynnast þessum þætti í starfsemi spítalans.

Ég óska Landspítalanum velfarnaðar við áframhaldandi iðkun vísinda og fræða og óska þess að takast megi, þrátt fyrir efnahagskreppu, að hlúa vel að kennslu, námi og vísindarannsóknum á spítalanum.

 

(Talað orð gildir)

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira