Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. október 2010 Innviðaráðuneytið

Bráðabirgðaákvæði um tímabundinn frest vegna greiðsluaðlögunar lögfest

Sá sem sækir um greiðsluaðlögun fær tímabundinn greiðslufrest strax og umsókn hefur borist Umboðsmanni skuldara. Frumvarp til laga um þessa breytingu á lögum um greiðsluaðlögun var samþykkt á Alþingi í dag. Fjárnám, kyrrsetning eigna og nauðungarsala verður óheimil meðan á greiðslufresti stendur.

Í breytingunni felst að þeim sem sækja um greiðsluaðlögun verður veittur tímabundinn greiðslufrestur strax og umsókn hefur borist Umboðsmanni skuldara en ekki við samþykkt umsóknar eins og nú er. Hið sama gildir um umsóknir sem borist hafa Umboðsmanni skuldara frá stofnun embættisins 1. ágúst sl.

Ákvæði um tímabundinn greiðslufrest er tímabundið og gildir til 1. júlí 2011 en þá er gert ráð fyrir að bið eftir afgreiðslu umsókna hafi styst verulega frá því sem nú er.

Kveðið er á um frestun greiðslna í 11. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Meðan á frestun greiðslna stendur er lánardrottnum óheimilt að:

  • krefjast eða taka við greiðslu á kröfum sínum,
  • gjaldfella skuldir samkvæmt samningsbundnum heimildum,
  • gera fjárnám, kyrrsetningu eða löggeymslu í eigum skuldarans eða fá þær seldar nauðungarsölu,
  • fá bú skuldarans tekið til gjaldþrotaskipta,
  • neita að afhenda gegn staðgreiðslu eða viðunandi tryggingum þær vörur eða þjónustu sem skuldari þarf á að halda vegna framfærslu sinnar eða heimilismanna vegna fyrri vanefnda,
  • krefjast greiðslu hjá ábyrgðarmanni skuldarans.

Tímabundin frestun greiðslna nær ekki til krafna sem stofnað er til eftir að Umboðsmaður skuldara hefur móttekið umsókn um greiðsluaðlögun.

Í 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga er fjallað um skyldur þess sem sótt hefur um greiðsluaðlögun meðan á greiðsluaðlögunarferlinu stendur. Þessar skyldur eiga við frá þeim tíma sem Umboðsmaður skuldara hefur móttekið umsókn og fela í sér að viðkomandi skuli:

  • leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða,
  • segja upp leigusamningum og öðrum samningum um útgjöld í framtíðinni sem ekki tengjast vöru og þjónustu sem er nauðsynleg honum eða heimili hans til lífsviðurværis eða eðlilegs heimilishalds,
  • ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla,
  • ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira