Hoppa yfir valmynd

Frétt

26. október 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 26. október 2010

Mætt: Lára Björnsdóttir formaður, Ásta Sigrún Helgadóttir, án tilnefningar, Einar Jón Ólafsson, tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Garðar Hilmarsson, tiln. af BSRB, Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands, Guðrún Eyjólfsdóttir, tiln. af SA, Gyða Hjartardóttir, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Gissur Pétursson, án tilnefningar, Páll Ólafsson, frá BHM, Stella K. Víðisdóttir, tiln. af Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Salbjörg Bjarnadóttir, varamaður Geirs Gunnlaugssonar, tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Sigurrós Kristinsdóttir, tiln. af ASÍ, Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Biskupsstofu, og Ingibjörg Broddadóttir, starfsmaður vaktarinnar. Katrín Alfreðsdóttir, nemi í starfsnámi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, og Lovísa Ósk Þrastardóttir, starfsmaður hjá Umboðsmanni skuldara, sátu einnig fundinn.

1. Fundargerð

Fundargerð 37. fundar var samþykkt.

2. Starfsemi vinnuhópanna, framhald umræðu frá 37. fund

  • Ásgeir Runólfsson mun starfa með hópnum um skuldavanda heimilanna.
  • Hópur um fátækt og félagslega útskúfun mun halda áfram starfi sínu.
  • Salbjörg Bjarnadóttir mun taka að sér formennsku í hópnum um börn og barnafjölskyldur.

3. Umræður um greinargerð um tilraunaverkefni til að sporna við neikvæðum afleiðingum atvinnuleysis ungs fólks í Reykjavíkurborg

Sveindís Anna Jóhannsdóttir verkefnisstjóri kynnti niðurstöður sínar á 37. fundi vaktarinnar, 12. október sl., og var greinargerð hennar dreift á þeim fundi. Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, sendi stýrihópnum í framhaldi athugasemdir við greinargerðina, dags. 21. október sl. Að mati GP eru niðurstöður tilraunaverkefnisins til lítils gagns fyrir þróun úrræða fyrir ungt fólk á átvinnu. Lára Björnsdóttir benti á að tilraunaverkefnið sýndi fram á að stuðningskerfin (Vinnumálastofnun, félagsþjónustan og fræðslusmiðstöðvarnar) vinni ekki nógu vel saman og mikilvægt væri að bæta úr því.

4. Umræður um fund velferðarvaktarinnar með lykilaðilum á Suðurnesjum

Lára fór yfir samantekt frá fundi sem haldinn var að beiðni félags- og tryggingamálaráðherra með lykilaðilum á Suðurnesjum 13. október 2010 og tillögur sem lagðar voru fyrir ráðherrann í framhaldi. Þar er meðal annars lagt til að ríkisstjórnin leggi fram fjármagn til að ráða starfsmann til að halda utan samstarf sveitarfélaganna á svæðinu og að atvinnuleysisbótatímabilið verði lengt í fimm ár*. Bent var á að símenntunarmiðstöðin á svæðinu gangi vel. Einnig var bent að fimm ár á atvinnuleysisbótum sé mjög langur tími og áður en lagt verði til að bótatímabilið sé lengt þurfi að gera félagsfræðilega úttekt á afleiðingum þess. Á hinn bóginn liggi fyrir atvinnulausum að fara á bætur félagsþjónustunnar að loknum atvinnuleysisbótatímabilinu og við það lækki framfærslufjárhæðin til muna. Það sé því mun verri kostur en að vera á atvinnuleysisbótum og með því sé vandinn fluttur yfir til sveitarfélaganna. Vakin var athygli á reglugerð nr. 12/2009 um þátttöku atvinnuleitenda í vinnumarkaðsaðgerðum og að fjármagn til ráðgjafar símenntunarstöðvanna hafi verið aukið til muna.

Rætt var um þörf á mun meiri formfestu í samstarfi á svæðinu, bæði hvað varðar málefni einstaklinga og ekki síður samstarf um ýmis önnur verkefni. Grípa verði inn í mál einstaklinga um leið og í ljós komi að þeir fari ekki strax í vinnu í kjölfar atvinnumissis. Nauðsynlegt er að styðja ráðgjafa sem vinna með fólki í atvinnuleit og áhersla var lögð á að skammtímaúrræði geti nýst vel og ekki mætti fórna þeim fyrir langtímaúrræðin sem velferðarvaktin hefur lagt ríka áherslu á að verði efld.

5. Önnur mál

  • Kynnt var bréf velferðarvaktarinnar til sveitarstjórna, fjárlaganefndar og félags- og tryggingamálanefndar Alþingis, dags. 25. október sl.**
  • Lýst var áhyggjum yfir fyrirhugaðri lækkun á fjárhæðum húsaleigubóta.

Næsti fundur verður haldinn 9. nóvember hjá Vinnumálastofnun.

Fundargerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.

*   http://www.velferdarraduneyti.is/velferdarvaktin/FrettirVelferd/nr/5237
** http://www.velferdarraduneyti.is/velferdarvaktin/FrettirVelferd/nr/5236

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum