Hoppa yfir valmynd

Frétt

1. nóvember 2010 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Lögskráning sjómanna orðin rafræn

Lögskráning sjómanna hefur verið færð frá lögskráningarstjórum til skipstjóra og útgerða eða Siglingastofnunar Íslands, samkvæmt nýjum lögum og nýrri reglugerð. Unnt er nú að lögskrá sjómenn rafrænt og opnaði Ögmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skráninguna formlega hjá Siglingastofnun í morgun.

Rafræn lögskráning sjómanna tekin formlega í notkun.
Rafræn lögskráning sjómanna tekin formlega í notkun.

Lögskráning sjómanna snýst um að halda til haga skrá um það hverjir starfa um borð í íslenskum skipum á sjó og segir hún þar með til um mönnun skipsins hverju sinni, atvinnuskírteini skipverja, siglingartíma og öryggisfræðslu þeirra. Nýju lögin leysa af hólmi lög frá árinu 1987 en lög um þetta efni eiga sér sögu allt aftur til 1889.

Rafræn lögskráning sjómanna tekin formlega í notkun.Helstu breytingar laganna snúast um sjálfa skráninguna sem nú færist frá lögskráningarstjórum. Verður hún framvegis á ábyrgð skipstjóra eða útgerða en unnt er að óska þess að Siglingastofnun Íslands annist lögskráningu ef menn kjósa svo. Skylt verður nú að lögskrá alla í áhöfn á öllum skipum sem gerð eru út í atvinnuskyni.

Skilyrði fyrir lögskráningu eru þau að skip hafi gilt haffærisskírteini, að áhafnatrygging sé í lagi, að skipið sé fullmannað samkvæmt lögum, að skipstjórnarmenn og vélstjórnarmenn hafi fullgild atvinnuskírteini og að allir í áhöfn hafi lokið að minnsta kosti smábátanámskeiði hjá Slysavarnaskóla sjómanna og síðan endurnýjað það á fimm ára fresti.

Rafræn lögskráning sjómanna tekin formlega í notkun.

Rafræn lögskráning fer þannig fram að útgerðarmaður eða skipstjóri getur lögskráð áhöfn með rafrænum skilríkjum eða með veflykli ríkisskattstjóra. Þarf útgerð að fylla út umsóknareyðublað um aðgang skipstjóra og útgerðar að lögskráningunni sem nálgast má á vef Siglingastofnunar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira