Hoppa yfir valmynd

Frétt

19. apríl 2011 Innviðaráðuneytið

Tillögur samráðshóps um húsnæðisstefnu

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður samráðshópsins.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður samráðshópsins.

Samráðshópur um húsnæðisstefnu hefur skilað velferðarráðherra skýrslu með tillögum um aðgerðir á sviði húsnæðismála. Meðal annars er lagt til að teknar verði upp húsnæðisbætur í stað vaxta- og húsaleigubóta til að stuðla að jafnari húsnæðisstuðningi hins opinbera óháð búsetuformi. Samráðshópurinn var skipaður í nóvember 2010 og var Sigríður Ingibjörg Ingadóttir formaður.  

Í skýrslunni eru markmið húsnæðisstefnu skilgreind og lagðar fram tillögur um hvernig stjórnvöld geti náð þeim. Skilgreint er hverjir skuli bera ábyrgð á útfærslu og framkvæmd tillagnanna, við hverja eigi að hafa samráð og hvenær þær eigi að koma til framkvæmda. Áhersla er lögð á að húsnæðisstefna skuli hafa það meginmarkmið að tryggja húsnæðisöryggi heimila í landinu og stuðla að félagslegri samheldni og efnahagslegum stöðugleika. Samráðshópurinn telur stórbætta greiningu á húsnæðismarkaðinum forsendu fyrir árangursríkri húsnæðisstefnu og leggur til að slík greining fari fram fyrir lok þessa árs.

Húsnæðisáætlun verði hluti af landsskipulagsstefnu

Lagt er til að ríkisstjórnir hverju sinni innleiði húsnæðisstefnu sína með gerð húsnæðisáætlunar. Húsnæðisáætlun verði hluti af landsskipulagsstefnu sem sveitarfélög taki mið af við gerð skipulagsáætlana eða breytinga á þeim. Með þessu móti geti ríkið stuðlað að fjölbreyttu framboði húsnæðis í samræmi við þarfir landsmanna og ákvarðanatöku á sviði húsnæðismála með heildarhagsmuni að leiðarljósi.

Húsnæðisbætur og aukið framboð leigu- og búseturéttaríbúða

Ein megintillaga hópsins er að teknar verði upp húsnæðisbætur í stað vaxta- og húsaleigubóta til jafna húsnæðisstuðning hins opinbera milli ólíkra búsetuforma og stuðla að því að heimili eigi val á milli leigu-, búseturéttar- og eignaríbúða. Meginreglan skuli vera sú að ríkið greiði almennan húsnæðisstuðning en sveitarfélögin veiti sérstakan húsnæðisstuðning vegna félagslegra aðstæðna. Hópurinn telur nauðsynlegt að skilgreina lágmarksþjónustu sveitarfélaga í þessum efnum og leggur jafnframt til að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga verði nýttur til að jafna greiðslubyrði þeirra.

Bent er á að stuðningur hins opinbera við fólk á leigumarkaði sé mun minni en við fólk í eigin húsnæði eða búseturéttaríbúðum. Því er lagt til að til skamms tíma verði tekjuskerðingarmörk húsaleigubóta hækkuð til að auka stuðning við lágtekjuhópa. Jafnframt er lagt til að opinberir aðilar vinni að því að efla almennan markað með leigu- og búseturéttaríbúðir. Með auknu framboði þessara kosta samhliða hærri húsaleigubótum megi auðvelda fjölskyldum sem nú eru í húsnæði í eigu sveitarfélaga þátttöku á almennum húsnæðismarkaði og hafa þannig fleiri valkosti en sveitarfélögin bjóða.

Hlutverk ríkisins á húsnæðislánamarkaði

Samráðshópurinn telur að ríkið skuli vera á húsnæðislánamarkaði til að ná hagkvæmni við öflun fjár til útlána, tryggja jöfn búsetutækifæri um allt land, stuðla að bættu aðgengi og auðvelda stjórnvöldum að ná félagslegum markmiðum.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir augljóst að stjórnvöld þurfi að eiga sér skýra langtímastefnu í húsnæðismálum. „Samráðshópurinn hefur unnið vandaða vinnu og miklu skiptir að góð samstaða var um tillögurnar innan hópsins sem var þverpólitískur með aðkomu mikilvægra hagsmunasamtaka. Ég mun á næstu vikum fara yfir og meta tillögur samráðshópsins. Þá tekur við forgangsröðun nánari útfærsla þeirra og framkvæmd.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum