Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. júní 2011 Innviðaráðuneytið

Ábending til umsækjenda um greiðsluaðlögun

Einstaklingar sem hyggjast sækja um greiðsluaðlögun til umboðsmanns skuldara eru hvattir til þess að sækja um fyrir 1. júlí næstkomandi vilji þeir nýta sér tímabundið ákvæði laga um frestun greiðslna gagnvart kröfuhöfum.

Alþingi samþykkti í október síðastliðinn tímabundna breytingu á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga. Breytingin fól í sér að þeim sem sækja um greiðsluaðlögun er strax við umsókn tryggð frestun á öllum greiðslum sem þeir hafa þegar stofnað til gagnvart kröfuhöfum (greiðsluskjól). Ákvæðið gilti einnig um þá sem sótt höfðu um greiðsluaðlögun fyrir gildistöku þessa ákvæðis.

Ákvæði um frestun greiðslna rennur út 1. júlí 2011. Þeir sem sækja um greiðsluaðlögun frá þeim tíma fá þar með ekki frestun á greiðslum gagnvart kröfuhöfum fyrr en umsóknin hefur verið afgreidd af hálfu umboðsmanni skuldara og hún samþykkt.

Allir sem nú eiga umsókn um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara njóta greiðslufrestunar þar til umsókn þeirra hefur verið afgreidd og sama máli gegnir um þá sem sækja um fyrir 1. júlí næstkomandi.

Hvað felst í frestun á greiðslum?

Frestun á greiðslum þýðir að ekki má krefja skuldara eða ábyrgðarmenn um gjaldfallnar kröfur eða greiðslur af lánum, ekki má gjaldfella skuldir, gera fjárnám, framkvæma kyrrsetningu eða fá eigur seldar nauðungasölu. Kröfuhafar mega ekki taka við greiðslum þegar greiðslufrestun er í gildi.

Á vef umboðsmanns skuldara er að finna almennar upplýsingar um greiðsluaðlögun og umsóknareyðublað.

Hægt er að leita til embættisins með því að koma í Kringluna 1 alla daga frá kl. 9-15. Ekki þarf að panta tíma. Einnig er hægt að hringja á símatíma milli kl. 13-15 og fá ráðgjöf hjá ráðgjöfum embættisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira