Hoppa yfir valmynd

Frétt

25. nóvember 2011 Félagsmálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Lífeyrir og bætur í velferðakerfinu hafa hækkað um átta milljarða í ár

Vegna umræðu síðustu daga telur velferðarráðuneytið ástæðu til að vekja athygli á að á þessu ári hafa útgjöld vegna bóta almannatrygginga og atvinnuleysisbóta verið aukin um rúma átta milljarða króna.

Velferðarráðherra kynnti þessar hækkanir í byrjun júní í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að lífeyrisþegar og atvinnuleitendur skyldu njóta hliðstæðra kjarabóta og samið var um á almennum vinnumarkaði í maí. Markmið þessara aðgerða var að bæta kjör þeirra sem minnst hafa og því voru hækkanirnar mestar hjá þeim tekjulægstu í hópi lífeyris- og bótaþega.

Hækkun atvinnuleysisbóta og lágmarkstryggingar lífeyrisþega

Grunnlífeyrir, aldurstengd örorkuuppbót, tekjutrygging og heimilisuppbót hækkuðu um 8,1% frá 1. júní 2011. Með því hækkaði lágmarkstrygging þeirra sem hafa engar tekjur aðrar en bætur almannatrygginga um 12.000 krónur. Eftir hækkunina voru lífeyrisþega sem býr einn tryggðar 196.000 krónur á mánuði en sá sem býr með öðrum 169.000 krónur á mánuði. Grunnatvinnuleysisbætur hækkuðu einnig um 12.000 krónur í tæpar 162.000 krónur á mánuði. Auk framantalinna bótaflokka hækkuðu endurhæfingarlífeyrir, barnalífeyrir, uppbót á lífeyri og sérstök uppbót til framfærslu, vasapeningar og örorkustyrkur um 8,1%. Sama máli gegnir um mæðra- og feðralaun, umönnunargreiðslur, maka- og umönnunarbætur, barnalífeyri vegna menntunar, dánarbætur, foreldragreiðslur, fæðingarstyrkur og ættleiðingarstyrkir.

50.000 króna eingreiðsla og desemberuppbót

Lífeyrisþegar sem fengu greiddan lífeyri á tímabilinu 1. mars til 31. maí 2011 fengu 50.000 króna eingreiðslu í júní og sama gilti um atvinnuleitendur sem voru að fullu tryggðir í atvinnuleysisbótakerfinu og höfðu staðfest atvinnuleit á tímabilinu 20. febrúar til 19. maí síðastliðinn. Eingreiðslurnar svara til eingreiðslu til launafólks samkvæmt kjarasamningum.

Jafnframt var ákveðið að Desemberuppbót elli- og örorkulífeyrisþega mun hækka úr 30% í 42% af tekjutryggingu og heimilisuppbót. Hækkunin nemur rúmum 15.000 krónum og verður desemberuppbótin um 52.500 krónur hjá lífeyrisþegum. Atvinnuleitendum var í fyrsta sinn greidd desemberuppbót á liðnu ári og verður hún nú í desember 2011 rúmar 63.000 krónur að meðtalinni 15.000 króna eingreiðslu.

Orlofsuppbót lífeyrisþega og bensínstyrkur

Í ár hefur orlofsuppbót til elli- og örorkulífeyrisþega hækkað úr 20% í 28,3% af tekjutryggingu og heimilisuppbót eða sem svarar 10.000 krónum og var nú rúmar 34.000 krónur. Hjá þeim sem eru ekki með heimilisuppbót hækkaði orlofsuppbótin um allt að 7.700 krónum. Að auki má geta þess að í ár var uppbót vegna reksturs á bíl (bensínstyrkur) hækkaður um 8,1%. Til þessa hefur uppbótin dregist frá þeirri upphæð sem lögð er til grundvallar lágmarkstryggingu lífeyrisþega. Með breytingu sem gerð var í ár hætti hún að skerða lágmarkstrygginguna líkt og gildir um aðrar uppbætur sem greiddar eru fólki til að mæta kostnaði, til dæmis vegna sjúkra- og lyfjakostnaðar.

Vandamál víxlverkana leyst

Í ár hefur tekist að leysa vandamál sem lengi hefur verið fyrir hendi í lífeyristryggingum og lýsir sér í víxlverkunum milli örorkubóta frá almannatryggingum og örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum.  Gagnkvæm tekjutenging almannatrygginga og greiðslna úr lífeyrissjóðum hefur hingað til leitt til tíðra breytinga á örorkulífeyrisgreiðslum og óöryggis fyrir lífeyrisþega.  Með lögum frá því í september sl. er kveðið á um að á tímabilinu 1. janúar 2011 til og með 31. desember 2013 muni greiðslur örorkulífeyris og tengdra bóta ekki lækka vegna almennra hækkana lífeyris úr lífeyrissjóðum. Á sama hátt munu greiðslur frá lífeyrissjóðum ekki lækka vegna almennra hækkana sem kunna að verða á örorkubótum almannatrygginga. Vandamálið varðandi víxlverkanir örorkubóta hefur því verið leyst tímabundið og unnið er að lausn vandans til frambúðar.  

Staða hinna tekjulægstu varin

Síðustu misseri hafa stjórnvöld lagt sérstaka áherslu á að verja stöðu þeirra tekjulægstu í hópi lífeyrisþega. Í júlí 2008 námu óskertar bætur einhleyps ellilífeyrisþega 136 þúsund krónum á mánuði. Í september sama ár var innleidd framfærslutrygging sem tryggði einhleypum lífeyrisþega að lágmarki 150 þúsund krónur á mánuði.  Sú lágmarkstrygging lífeyris var hækkuð um 20% í janúar 2009 og fór þá í 180.000 krónur á mánuði. Aftur varð hækkun um 2,3% þann 1. janúar 2010 og með hækkuninni sem tilkynnt var í júní í ár fór lágmarkstryggingin eins og áður sagði í rúmar 196.000 krónur á mánuði hjá einstaklingum sem búa einir.  Þessi upphæð mun hækka í 203 þúsund krónur þann 1. janúar 2012. Þá munu lágmarksbætur hafa hækkað um tæp 50% frá júlí 2008.  Á sama tíma hefur launavísitala hækkað um 23% miðað við áætlað verðlag 2012. 

Elli- og örorkulífeyrisþegar eru stór hópur landsmanna, rúmlega 40.000 manns og eru aðstæður innan hópsins mismunandi. Margir eru ágætlega settir en hluti hópsins stendur verr og á erfitt með að ná endum saman. Stefna stjórnvalda hefur verið sú að styðja sérstaklega við þá sem lökust hafa kjörin og verður haldið áfram á þeirri braut, enda brýnt á þessum tímum þegar minna er til skiptanna en áður og mikilvægt að auka jöfnuð í samfélaginu. 

Á meðfylgjandi línuriti má sjá þróun þróun bóta elli- og örorkulífeyris borna saman við verðlags og launaþróun frá árinu 2006.

Samanburður elli- og örorkubóta við laun og verðlag


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira