Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. nóvember 2011 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Ný Vestmannaeyjaferja eigi síðar en 2015

Fulltrúar innanríkisráðuneytis, Siglingastofnunar, Vegagerðar og Vestmannaeyjabæjar ræddu um siglingar milli lands og Eyja á fundi í ráðuneytinu í dag. Leitað er framtíðarlausnar á þessum siglingum til að tryggja öruggar ferðir milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja.

Ákveðið var að hefja strax athugun og undirbúning að smíði nýrrar ferju sem tæki við af Herjólfi enda ljóst að verulegar frátafir verða við siglingar í Landeyjahöfn á meðan siglt er á núverandi ferju. Athugaðar verða heppilegar leiðir til að fjármagna verkefnið. Stefnt er að því að ný ferja geti hafið siglingar ekki síðar en árið 2015 og fyrr ef undirbúningur og smíði á nýju skipi leyfa.

Þá var einnig rætt um hvernig tryggja megi betur siglingar um Landeyjahöfn þar til ný ferja verður tekin í notkun. Bráðabirgðalausnir eru einnig áfram til skoðunar.

Farið var yfir vandamál við dýpkun og þá kosti sem eru í stöðunni varðandi siglingar í vetur. Tíminn þar til að ný ferja kemur verður nýttur til þess að finna varanlega lausn á hvernig megi viðhalda nægu dýpi í höfninni. Innanríkisráðherra mun fljótlega boða til annars fundar með sömu aðilum um þessi mál.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira