Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. febrúar 2012 Innviðaráðuneytið

Útibú umboðsmanns skuldara opnað á Akureyri

UMS opnar útibú á Akureyri
Frá opnun útibús umboðsmanns skuldara á Akureyri

Opnað hefur verið útibú á vegum embættis umboðsmanns skuldara á Akureyri. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra var viðstaddur opnunina síðastliðinn föstudag.

Ráðherra sagði heimamenn; Akureyringa og nærsveitunga, hafa óskað eftir því um langa hríð að fá þessa þjónustu nær sér og lýsti ánægju með að nú væri útibú á Akureyri orðið að veruleika. Hann þakkaði Akureyrarbæ sérstaklega fyrir þátt bæjarfélagsins í undirbúningi þess að koma útibúinu á fót og sagðist vænta góðs samstarfs milli embættisins og bæjarfélagsins, enda starfsstöðvar umboðsmanns í sambýli við fjölskyldusvið Akureyrarbæjar:

 „Starfsmönnunum tveimur sem ráðnir hafa verið til að sinna þjónustunni hér, þeim Hörpu Halldórsdóttur viðskiptafræðingi og Heiðrúnu Ósk Ólafsdóttur lögfræðingi, óska ég velfarnaðar í störfum sínum undir styrkri leiðsögn og stjórn Ástu S. Helgadóttur, umboðsmanns skuldara, sem er orðin býsna reynd í sínu starfi til fjöldamargra ára, fyrst hjá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og síðan sem umboðsmaður skuldara.“

Útibú umboðsmanns skuldara er á Glerárgötu 26, 1. hæð. Opið er alla virka daga frá kl. 9.00 til 15.00 og hægt er að panta viðtalstíma hjá ráðgjafa í síma 512 6600. 

Útibúið á Akureyri er annað útibú embættisins, en í desember 2010 opnaði umboðsmaður skuldara útibú í Reykjanesbæ. Líkt og í Reykjanesbæ starfa tveir ráðgjafar í útibúinu á Akureyri.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira