Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. mars 2012 Félagsmálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Vistunarmatsnefndir sameinaðar

Alþingishúsið
Alþingishúsið

Ein nefnd í hverju heilbrigðisumdæmi mun leggja mat á þörf fólks fyrir búsetu í dvalar- eða hjúkrunarrými í stað tveggja eins og verið hefur. Frumvarp velferðarráðherra þessa efnis varð að lögum frá Alþingi í gær. Markmiðið er að auðvelda fólki að sækja um dvöl á stofnun og einfalda stjórnsýsluna. Lög um þessar breytingar taka gildi 1. júní næstkomandi.

Með því að sameina þessi verkefni hjá einni nefnd skapast aukin heildarsýn yfir þörf fólks fyrir búsetu á stofnun. Undanfarin ár hefur verulega dregið úr þörf fólks fyrir dvalarrými þar sem æ fleiri geta búið á heimilum sínum með viðeigandi stuðningi og þjónustu sveitarfélags og ríkis. Þetta hefur leitt til þess að þegar að fólk getur ekki lengur búið heima með stuðningi þurfi flestir á hjúkrunarrými að halda.

Orðalagi breytt til samræmis við breytta hugmyndafræði

Í umfjöllun velferðarnefndar Alþingis um frumvarpið voru lagðar til orðalagsbreytingar sem miða að því að færa hugtakanotkun laganna að breyttri og nútímalegri hugmyndafræði. Alþingi samþykkti breytingarnar sem fela í sér að í stað orðsins dagvistar kemur dagdvöl, í stað vistmanns kemur heimilismaður í stað vistunarmats kemur færni- og heilsumat“ og í stað „skammtímavistunar“ orðið „hvíldarinnlögn.“

Formlegt mat á þörf fólks fyrir hvíldarinnlögn

Auk framantalinna breytinga er í nýsamþykktum lögum kveðið á um að færni- og heilsumatsnefnd skuli einnig annast mat á þörf einstaklinga sem búa í heimahúsi fyrir hvíldarinnlögn.

Samkvæmt nýjum lögum skipar velferðarráðherra færni- og heilsumatsnefnd í hverju heilbrigðisumdæmi. Nefndin skal skipuð lækni með sérmenntun í öldrunar- eða heimilislækningum eða langvinnum sjúkdómum, hjúkrunarfræðingi með þekkingu á öldrunarþjónustu eða hjúkrun langveikra og félagsráðgjafa, sálfræðingi eða öldrunarfræðingi með þekkingu á félagsþjónustu við aldraða eða langveikt fólk. Í fjölmennum heilbrigðisumdæmum er þó heimilt að skipa sex manns í færni- og heilsumatsnefnd, enda uppfylli nefndarmenn sömu menntunarskilyrði og í þriggja manna nefnd og jafnvægi milli sérþekkingarinnar sé það sama. Skipa skal varamenn sem uppfylla sömu menntunarskilyrði og aðalmenn.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira