Hoppa yfir valmynd

Frétt

4. júní 2012 Dómsmálaráðuneytið

Fangelsið Sogni formlega tekið í notkun

Nýtt fangelsi að Sogni í Ölfusi var formlega tekið í notkun 1. júní síðastliðinn. Fangelsið er skilgreint sem „opið“ fangelsi og verður það rekið sem útibú frá öryggisfangelsinu á Litla-Hrauni. Gert er ráð fyrir að vista þar allt að 20 fanga.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ávarpaði gesti en dagskráin fór fram utan dyra í miklu blíðviðri.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ávarpaði gesti en dagskráin fór fram utan dyra í miiklu blíðviðri.

Fangelsið að Sogni leysir af hólmi fangelsi það sem rekið var að Bitru og tekið var í notkun á árinu 2010. Gerðar hafa verið töluverðar endurbætur á húsnæðinu sem áður hýsti réttargeðdeild sem var flutt á Klepp í Reykjavík. Aðbúnaður er góður og þar starfa átta fangaverðir.

Við opnunina á föstudag bauð forstöðumaður fangelsisins, Margrét Frímannsdóttir, gesti velkomna. Til máls tóku Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, Páll E. Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, Björgvin G. Sigurðsson, formaður allsherjarnefndar Alþingis, Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Ölfuss, Sigurður Guðmundsson, formaður fangavarðafélagsins og sr. Hreinn Hákonarson, fangelsisprestur sem blessaði starfsemi fangelsisins.

Starfsfólk og fangelsisstjóri í tröppunum á Sogni.


Starfsfólk fangelsisins að Sogni ásamt Margréti Frímannsdóttur forstöðumanni.

Í ræðu innanríkisráðherra kom fram að margar jákvæðar breytingar ættu sér nú stað í fangelsismálum á Íslandi og nefndi hann í því sambandi m.a. opnun fangelsisins, aukna samfélagsþjónustu og rafrænt eftirlit.

Föngum á Sogni er ætlað að stunda vinnu eða nám og sjá fangar sjálfir um eldamennsku, þrif, þvotta og annað er viðkemur almennu húshaldi og er markmiðið m.a. að þjálfa þá í lífsleikni. Þannig er lagður grunnur að því að undirbúa fanga til að koma út í samfélagið að nýju.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira