Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. júní 2012 Innviðaráðuneytið

Opinber húsnæðisáætlun á fjögurra ára fresti

Vinnuhópur um gerð húsnæðisáætlunar ásamt velferðarráðherra
Vinnuhópur um gerð húsnæðisáætlunar ásamt velferðarráðherra

Vinnuhópur um gerð húsnæðisáætlunar hefur skilað velferðarráðherra skýrslu með tillögum sínum. Störf hópsins eru liður í stærra verkefni sem miðar að því að móta heildstæða húsnæðisstefnu á Íslandi í samræmi við tillögur samráðshóps um húsnæðisstefnu sem kynntar voru í apríl 2011.  

Markmið húsnæðisstefnu er að tryggja landsmönnum fjölbreytta og örugga valkosti í húsnæðismálum. Sérstök áhersla er lögð á að efla varanlega leigu- og búseturéttarkosti og stuðla að jöfnuði milli búsetuforma. Til að útfæra tillögur samráðshópsins skipaði ráðherra fimm vinnuhópa sem falið var að fjalla um upptöku húsnæðisbóta, rekstrar- og skattaumhverfi leigufélaga, bætta öflun og miðlun upplýsinga, framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs og gerð húsnæðisáætlunar.

Vinnuhópur um gerð húsnæðisáætlunar telur húsnæðisáætlun nauðsynlega til að fylgjast með þróun húsnæðismarkaðarins, stuðla að hæfilegu framboði íbúðarhúsnæðis og styðja við markmið stjórnvalda, ríkis og sveitarfélaga í húsnæðismálum og skipulagsmálum. Þá eigi húsnæðisáætlun að vera hluti af landsskipulagsstefnu.

Vinnuhópurinn bendir á að gerð húsnæðisáætlunar verði að byggjast á víðtæku samstarfi hagsmunaaðila á húsnæðismarkaði, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, opinberra stofnana sem tengjast málaflokknum og fjármálafyrirtækja. Aukið samráð og samstarf þessara aðila geti leitt til skynsamlegri ákvarðana þeirra og annarra um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og góðrar húsnæðisáætlunar segir í skýrslu hópsins.

Lagt er til að velferðarráðuneytið beri ábyrgð á gerð húsnæðisáætlunar sem verði unnin á fjögurra ára fresti hið minnsta. Upplýsingar sem liggja til grundvallar húsnæðisáætlun verði opinberar, sundurliðaðar eftir landshlutum og sveitarfélögum og uppfærðar árlega. Húsnæðisáætlun á að taka mið af raunhæfum svæðis- og aðalskipulagsáætlunum segir í skýrslunni. Þá þurfi áætlanir fyrir einstaka landshluta að vera í samræmi við líklega fólksfjöldaþróun, áætlaða atvinnuuppbyggingu og aðrar stefnur stjórnvalda sem eru líklegar til að hafa áhrif á húsnæðisuppbyggingu.

Meta þarf framboð íbúðarhúsnæðis samkvæmt skipulagsáætlunum sveitarfélaga og er áhersla lögð á að sveitarfélög skili upplýsingum um áætlaða uppbyggingu íbúðarhúsnæðis til Skipulagsstofnunar þegar skipulagsáætlanir eða breytingar á þeim eru samþykktar.

Með gerð húsnæðisáætlunar er stefnt að því:

  • Að tryggja að framboð af nýju húsnæði í einstaka landshlutum og bæjum sé í samræmi við eftirspurn.
  • Að nægt framboð sé af húsnæði sem fullnægir þörfum tekjulágra og stuðlar að því að útgjöld vegna húsnæðis verði ekki stór hluti af ráðstöfunartekjum landsmanna.
  • Að íbúðagerð sé fjölbreytt í einstökum hverfum og bæjarfélögum til að stuðla að félagslegri samheldni. Þörf er fyrir stórar og litlar íbúðir í fjölbýlis- og sérbýlishúsum til útleigu og eignar.
  • Að stuðla að sjálfbærni og skynsamlegum þéttleika byggðar. Auðvelt aðgengi að grunnþjónustu og almenningssamgöngum þarf að vera í hverfum og bæjum.
  • Að auðvelda sveitarfélögum gerð skipulagsáætlana.
  • Að vinna með Skipulagsstofnun við að ná markmiðum sínum um að skipulagsáætlanir og geiraáætlanir verði samþættar og stuðla að öflugri faglegri umræðu um skipulagsmál.

Skýrsla vinnuhóps um húsnæðisáætlun


 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira